146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

skipulag haf- og strandsvæða.

408. mál
[18:30]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um skipulag haf- og strandsvæða og það ekki í fyrsta sinn. Þetta mál á sér afar langa sögu hér í þinginu. Í raun má segja að þetta sé sú tegund löggjafar sem kemur til af ástandi sem er í vissum skilningi óásættanlegt, þ.e. sú tegund löggjafar að við erum svolítið að elta aðstæðurnar uppi, þ.e. við horfum upp á stöðu sem við gerðum kannski ekki ráð fyrir, ákveðna árekstra, ef svo má að orði komast, milli aðila sem hafa hagsmuni af nýtingu á haf- og strandsvæðum og stjórnvalda sem hafa þá stöðu að gæta almannahagsmuna í hvívetna á hverjum tíma. Þá eru það bæði ríki og sveitarfélög og þá er það meira að segja þannig að afstaða þeirra aðila fer ekki endilega saman. Löggjafanum er því nokkur vandi á höndum að ná utan um stöðuna sem upp er komin og af þeim sökum er ferillinn langur og samráðið mikið.

Ég vil sérstaklega fagna því sem fram kemur í máli hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra í andsvörum. Hún telur að málið þurfi meðgöngutíma, þurfi langan tíma, bæði hér í þinginu og í samskiptum við hagsmunaaðila. Við sjáum hér, í ágætri greinargerð og texta með frumvarpinu, að samráðið hefur verið ítarlegt hingað til á vegum ráðuneytisins. Að hluta til má segja að samráðið og umfjöllun um grundvallarþætti sé að baki og við mættum þá vænta þess að frumvarpið væri orðið nægilega þroskað til þess að það ætti að hljóta farsælan framgang. Þó er það svo að við þurfum að átta okkur á því, og hér hefur aðeins verið vikið að því í andsvörum og ræðum, að ekki er víst að hagsmunir allra fari saman í þeim efnum.

Þegar ný skipulagslög voru samþykkt hér á Alþingi með öllum greiddum atkvæðum 2010 þá var það gríðarlega umfangsmikil löggjöf sem náði utan um endurskoðun á þeim málaflokki öllum, en þar er um að ræða mjög mikilvægan málaflokk sem lýtur að þeim ferlum sem varða ráðstöfun lands, skipulagsvald eða skipulagsskyldu sveitarfélaga eftir atvikum, aðkomu almennings við ákvarðanatöku o.s.frv. Fljótlega, og auðvitað má svo sem segja að það hafi legið fyrir þá þegar, lá fyrir að um var að ræða skort á yfirsýn yfir þá starfsemi sem ætti sér stað á haf- og strandsvæðum og kom fram í skýrslu nefndar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, eins og kemur fram frá 2011, um úttekt á gildandi lögum og reglum um framkvæmdir og athafnir með ströndum landsins og í efnahagslögsögunni.

Mig minnir nú, ég finn það ekki í textanum, að niðurstaðan hafi verið sú að um væri að ræða fjögur ráðuneyti og 11 stofnanir þegar allt var talið sem kæmu að þessum málum með einhverju móti og var þá ekki farið yfir stöðu sveitarfélaganna sérstaklega sem bættust þar við.

Eins og fram kemur í frumvarpinu erum við hér að tala um margs konar nýtingu, þ.e. starfsemi vegna orkuvinnslu, mannvirkjagerðar, eldis eða ræktunar nytjastofna, efnistöku, verndarsvæða, vatnsverndar, umferðar og samgangna, útivistar, ferðaþjónustu, fiskveiða og fleiri þátta. Þá þegar erum við komin með gríðarlega mikinn og fjölbreyttan hóp ýmiss konar hagsmunaaðila sem þegar hafa hagsmuni af ákveðinni umgengni og nýtingu við haf- og strandsvæði.

Því vil ég sem fyrrverandi umhverfis- og auðlindaráðherra brýna Alþingi í því efni að gefa sér það ráðrúm sem þarf til að ná farsælli lendingu í þessu mikilvæga máli, því að ég fagna því að það skuli vera komið fram. Ég ætla ekki að gagnrýna að það sé komið seint fram. Ég held að það sé í raun sama hvenær ársins mælt er fyrir svona máli af því að það þarf nokkurt tilhlaup til að gera svona mál að lögum; og ætti þá að gefast nægilegt ráðrúm til að koma málinu til umsagna og gera það þá vonandi enn betra í sumar. Ég vil brýna bæði ráðherrann og ekki síst nefndarformanninn, sem ég sé að situr í salnum, í því að leggja töluvert á sig til að þetta verði samstöðumál, einfaldlega vegna þess hverrar gerðar það er. Það var gert á sínum tíma við aðstæður þó nokkurrar sundrungar hér á Alþingi 2010 þegar við settum ný skipulagslög í samstöðu vegna þess að um er að ræða ríka almannahagsmuni og hagsmuni náttúru og umhverfis til langrar framtíðar.

Í markmiðsgrein laganna segir að það sé markmið laganna að nýting og vernd auðlinda haf- og strandsvæða verði í samræmi við skipulag sem hefur efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir landsmanna, heilbrigði þeirra og öryggi að leiðarljósi. Einnig er vísað til vistkerfisnálgunar, heildarsýnar á málefni hafsins, að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála og tryggja samráð og samvinnu við sveitarfélög, samráð við almenning og aðra hagsmunaaðila og að tryggja faglegan undirbúning framkvæmda á haf- og strandsvæðum.

Mig langar að nefna það sérstaklega í þessari stuttu ræðu hér við 1. umr. að nefndin hugi sérstaklega að aðkomu almennings á öllum stigum ákvarðanatöku. Árósasamningurinn er nokkuð sem okkur lánaðist að festa í lög á sínum tíma og snýst um aukna aðkomu og skýrari aðkomu almennings að ákvarðanatökuferlum og upplýsingum á öllum stigum. Til hvers er það? Það er til þess að koma í veg fyrir ágreining þegar framkvæmdaleyfi hefur verið gefið út, þ.e. það er ekki til þess eins, eins og sumir hafa látið í veðri vaka þegar til kastanna kemur, að opna kæruleiðir fyrir hagsmunasamtök eða umhverfisverndarsamtök eða því um líkt, sem er auðvitað afar mikilvægt, heldur fyrst og fremst að freista þess að koma í veg fyrir að slíkar aðstæður komi upp vegna þess að allir aðilar séu að hlusta eftir ólíkum sjónarmiðum allt ferlið frá upphafi til enda.

Ég vil því brýna nefndina til að skoða sérstaklega Árósasamninginn, aðkomu almennings á öllum stigum og möguleika til að koma athugasemdum sínum á framfæri.

Í frumvarpinu kemur fram ákveðin hugsun um að svæðisráð beri ábyrgð á gerð strandsvæðaskipulags og að ráðherra skipi allt að sjö manna svæðisráð til að annast gerð strandsvæðaskipulags á tilteknu svæði og endurskoðun þess. Þetta er gert með tiltölulega óvenjulegum hætti og með öðru sniði en gildir um skipulagsmál almennt. Þess vegna þarf mjög ríkan gagnkvæman skilning milli sveitarfélaga og ríkisins í þessum efnum. Þar eru auðvitað fyrir hendi samkvæmt lögum mjög tryggir og gagnsæir ferlar, þ.e. í skipulagsgerð sveitarfélaganna og samkvæmt lögunum frá 2010, um svæðisskipulag almennt og hvernig fer með samráð, auglýsingar, fresti o.s.frv. í þeim efnum.

Hér er gert ráð fyrir því að ráðherra sem fer með orkumál og ferðamál, ráðherra sem fer með sjávarútvegsmál og ráðherra sem fer með samgöngumál skuli hver hafa einn fulltrúa í svæðisráði. Aðliggjandi sveitarfélög hafi einn fulltrúa og Samband íslenskra sveitarfélaga einn fulltrúa, og svo er það auðvitað fulltrúi umhverfis- og auðlindaráðherra sem er formaður svæðisráðsins.

Ég geri ráð fyrir því, þegar þetta liggur fyrir, og jafnframt er farið yfir það hér í ágætum kafla um samráð, að Samband íslenskra sveitarfélaga og þau sveitarfélög sem mest mæðir á ef svo má að orði komast — þau sem eru fyrir vestan og austan eðli málsins samkvæmt — séu sátt við þá tillögu sem liggur fyrir. Þó komu fram, í ágætri ræðu hv. þm. Teits Björns Einarssonar, ýmsar vangaveltur sem er mikilvægt fyrir nefndina að skoða, sérstaklega í þessum efnum. Vestfirðingar hafa farið mjög fyrir þróunarvinnu í þessum efnum, enda er gert ráð fyrir því í bráðabirgðaákvæði að strax skuli hefja vinnu við gerð strandsvæðisskipulags fyrir Vestfirði í byrjun árs 2018. Þar erum við langt frá því að byrja á byrjunarreit, vegna þess að þar er mjög mikil vinna sem hefur þegar verið unnin og ekki síður gríðarlega mikil þekking í héraði á þeim álitamálum sem upp hafa komið og munu koma í þessum efnum, auk þess sem þau sveitarfélög sem þar eru hafa mikla reynslu af samstarfi og samráði um svæðisskipulag á svæðinu.

Í kafla sem fylgir frumvarpinu um samráð er það sérstaklega tekið fram að almennt hafi komið fram í umsögnum ánægja með að sett yrðu lög um skipulag á haf- og strandsvæðum, en athugasemdir hafi helst lotið að skörun við skipulagshlutverk sveitarfélaga, lögsögu þeirra og að skilgreina þyrfti nánar hugtakið strandsvæði og hafsvæði og afmarka frekar mörk strandsvæðisskipulags. Þetta er auðvitað gríðarlega aðkallandi viðfangsefni. Eitt er það að skilgreina þessi hugtök og draga línuna ef svo má að orði komast, en mikilvægast í mínum huga er þó að traust sé á milli þeirra aðila sem með málið fara; hvort sem það eru skipulagsyfirvöld á landsvísu eða sá vettvangur sem kynntur er til sögunnar í frumvarpinu, þ.e. svæðisráðið, eða þá sveitarfélögin sem slík. Flækjustigið er töluvert, það er það, það ræðst bara af viðfangsefninu sem hér er uppi. Það verður kannski ekkert hjá því komist að þetta sé töluvert flókið. Flækjurnar eru ærnar fyrir og í þessu frumvarpi er verið að freista þess að ná utan um þær með viðhlítandi hætti.

Ég vil fyrst og fremst, virðulegi forseti, í þessari umræðu fagna framkomu málsins. Það á rætur að rekja allt aftur á það kjörtímabil sem þingmaður VG sat í embætti umhverfis- og auðlindaráðherra og endurspeglar að þetta er ekki einnar nætur mál. Þetta er viðfangsefni sem tekur tíma. Ég vil ljúka máli mínu á því að árétta þá brýningu til hv. umhverfis- og samgöngunefndar að hún reyni að ná mjög vel utan um málið, bæði pólitískt, gagnvart sveitarfélögunum og öðrum þeim sem um málið véla. Ég held að það sé miklu frekar það en að sett verði undir allan leka í svona máli því að það mun ýmislegt koma upp, þetta verður alltaf flókið. Það er mikilvægast af öllu að það séu tryggir ferlar til að taka á álitamálum, miklu frekar en að þau séu öll tryggð í frumvarpi sem þessu. Það þarf að vera gagnkvæmur skilningur á því og traust á þeim ferlum sem verða til til að leiða álitamál til lykta af því að þau munu svo sannarlega koma upp í svo flóknu máli sem hér er til umfjöllunar.