146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

skipulag haf- og strandsvæða.

408. mál
[18:44]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Með þessu frumvarpi um skipulagningu haf- og strandsvæða er stigið nýtt skref, eins og fram hefur komið í umræðunni í dag. Við erum að stíga mikilvægt skref sem við þurfum að vanda okkur við. Úrlausnarefnin eru flókin sem við stöndum frammi fyrir og mörgum spurningum er ósvarað þegar kemur að nýtingu þessarar auðlindar og skipulagi svæðanna.

Hér er lögð áhersla á fjölbreytta nýtingu sem byggist á heildarsýn, vistkerfanálgun, náttúruvernd og sjálfbærri þróun. Það er gott. Það er gott að þetta mál sé komið fram. Ég vil taka undir orð þeirra þingmanna sem hafa talað á undan mér að það er mjög mikilvægt að við náum hér sátt og vöndum okkur vel í allri þessari vinnu.

Það hafa komið fram sterk viðbrögð frá sveitarstjórnum og þá sérstaklega fyrir austan og fyrir vestan þar sem þau sveitarfélög eru sem þetta snertir helst. Fram hefur komið í máli þeirra fulltrúa að tillögur í þessum drögum gangi gegn þeirri meginreglu að efla skuli staðbundið vald og ákvarðanatöku með tilliti til almannahagsmuna og skynsamlegrar meðferðar opinberra fjármuna. Þróunin hefur verið sú undanfarið að æ fleiri verkefni hafa verið færð til sveitarfélaga frá ríki. Þess vegna koma þessi viðbrögð frá fulltrúum sveitarfélaganna og það er kannski ekki skrýtið. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að við leiðum þetta mál áfram í sátt og vöndum okkur vel í allri þeirri mikilvægu vinnu sem fram undan er.

Það var nú sá punktur sem ég ætlaði að koma með og brýni nefndina og þá sem koma að þessari vinnu að heyra vel í öllum aðilum og ræða málin og leiða málið til lykta í eins mikilli sátt og hægt er.