146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

505. mál
[19:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Því er til að svara að ekki má búast við að þetta skref verði verulegt skref. Þetta er fyrst og fremst formsatriði eins og ég upplýsti hér í framsöguræðu minni, til að við uppfyllum öll skilyrði sem alþjóðasamningar okkar skuldbinda okkur til.

Segja verður um spurningu hv. þingmanns, hvort þetta virðist ganga samkvæmt áætlun, að ef við horfum á þróunina var snjóhengjan svonefnda, ef ég man rétt, um 600 milljarðar í upphafi. Nú eru, eftir síðasta tilboð, innan við 100 milljarðar eftir. Þar af eru ákveðnar fjárhæðir sem menn áttu nú ekki von á að færu. Það eru til dæmis fjárfestingar í hlutabréfum sem eru um 20 milljarðar kr. Ég held að í stórum dráttum fari þetta eftir áætlun.