146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

um fundarstjórn.

[19:24]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég er einn af þeim sem urðu undrandi þegar vikið var frá dagskrá hér fyrr á fundinum, undir kvöldið, og allt í einu hoppað yfir 13. dagskrármálið og byrjað á því 14., með fullri virðingu fyrir því máli sem er flutt af hæstv. fjármálaráðherra. Ég hafði undirbúið mig fyrir umræður um 13. dagskrármálið og að dagskrá fundarins yrði fylgt og vissi ekki að annað stæði til. Svo berast þessar fréttir núna, að það sé ekki á næstunni heldur kannski klukkan níu í kvöld sem hæstv. ráðherra verði tilbúinn til að koma hér og mæla fyrir málinu. Ég er ekki sáttur við þetta verklag. Mér finnst illa farið með tíma okkar með þessu. Ef þetta lá fyrir fyrir einhverju síðan hefði verið eðlilegt að upplýsa um það svo þeir sem hér eru og hafa lokið störfum að öðru leyti en því að bíða eftir að tiltekið mál komist á dagskrá fái að minnsta kosti að vita um slíkt. Ég gæti alveg notað tíma minn í eitthvað annað en að bíða eftir máli sem er síðan alls ekki tekið fyrir, og tek þá fram, frú forseti, að það er ekki vegna þess að ég væri að horfa á Eurovision heldur væri ég að gera eitthvað annað gagnlegra. [Hlátur í þingsal.]