146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

um fundarstjórn.

[19:32]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að eftir því sem ég hlýði á fleiri þingmenn rennur það skýrar upp fyrir mér hversu sóðaleg þessi umgengni framkvæmdarvaldsins er við löggjafarvaldið. Hér er um að ræða mál sem að mati okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er stórmál. Þetta lýtur að keðjuábyrgð. Það er eitt af forgangsmálum okkar hér í þinginu. Það er ástæða þess að ég er ekki að horfa á Eurovision, sem ég hef áhuga á, ólíkt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Ég hefði mjög gjarnan viljað fá tækifæri til að gera það hefði ég vitað af þessari breytingu á dagskrá. En við erum ekki látin vita. Kannski er hæstv. ráðherra með fullgilda afsökun. Það getur vel verið. En afbrigði voru veitt og hér höfum við verið til þess að taka þátt í umræðu um mál sem varðar íslenskan vinnumarkað mjög miklu af því að við vorum ekki upplýst um að til stæði að breyta dagskrá. Þess vegna ætla ég að taka undir með hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur. Þetta setur að sjálfsögðu öll þau afbrigði sem við verðum beðin um héðan í frá á þessu þingi í nýtt ljós og nýtt samhengi. Það er alveg ljóst að þegar framkvæmdarvaldið kýs að umgangast löggjafarvaldið með þessum hætti (Forseti hringir.) spillir það fyrir góðum og eðlilegum samskiptum.

Og ég ítreka kröfu um hlé á þessum fundi.