146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

um fundarstjórn.

[19:48]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég er nú að verða enn ruglaðri í þessu. Mér er ekki ljóst af umræðunni hvort hæstv. félagsmálaráðherra er erlendis og annar ráðherra gegnir fyrir ráðherrann eða hvort hæstv. félagsmálaráðherra er bara einhvers staðar tepptur. Þá á að kippa öðrum ráðherra sem ekki er að gegna embættinu til að mæla fyrir þessu máli. Það súrnar nú enn í þessu ef þetta er svoleiðis hringl. Ég undirbjó mig undir að taka þátt í þessu máli. Mér fannst sjálfsagt að greiða því atkvæði með afbrigðum að það kæmist á dagskrá. Málið snertir mjög mikilvæg atriði. Er þó væntanlega því miður sennilega ekki nógu beitt eða gott til að taka á þeim vanda. En engu að síður: að fá svo skilaboð um það hérna á sjöunda tímanum, nei, dagskránni hent, og vesgú, við eigum að sitja og bíða í tvo og hálfan klukkutíma þar til einhverjum ráðherra úr Viðreisn þóknist að koma og mæla fyrir málinu. Þetta er ekki boðlegt. Ég tel að gera eigi annað tveggja, að minnsta kosti að fresta fundinum eða slíta honum því að það væri mjög ankannalegt að fara að taka hér fyrir einhver önnur mál á meðan. (Forseti hringir.) Ég vona að forseti hafi nú meðtekið þau sterku skilaboð sem eru komin frá mestöllum salnum, þeim sem hér eru mættir og eru í vinnunni sinni. Það á nú að taka meira mark á þeim en hinum sem eru heima.