146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja o.fl.

457. mál
[20:48]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil undirstrika að þetta er fyrst og fremst innleiðingarmál. Mjög mikilvægt innleiðingarmál. Það liggur ljóst fyrir að þetta eru lög sem tengjast útsendum starfsmönnum. Lögin munu hafa mikla þýðingu fyrir allan vinnumarkaðinn í heild sinni, innleiðing þessarar tilskipunar, og koma í veg fyrir — það er það sem við erum að reyna að gera — félagsleg undirboð. Auðvitað vitum við hvaða aðstæður eru að hluta til á vinnumarkaði. Það eru aðstæður sem hv. þingmaður var að tala um sem geta komið upp hér á vinnumarkaði. Auðvitað fylgjast menn mjög vel með því. Það er alls ekki útilokað að menn — og ég velti því sjálf fyrir mér þegar ég var að skoða og lesa frumvarpið því að þetta tilheyrir alla jafna ekki mínu ráðuneyti, ég er hér staðgengill hæstv. félagsmála- og jafnréttisráðherra, af hverju til að mynda keðjuábyrgðin fjalli bara um byggingarstarfsemina og mannvirkjagerðina. En það er engu að síður þannig að við ætlum að halda áfram að skoða fleiri þætti. Með þessu finnst mér félagsmálaráðuneytið vera með mjög vakandi auga á því hvað er að gerast á vinnumarkaðnum. Það eru allir meðvitaðir um að ætla sér að koma í veg fyrir félagsleg undirboð af hvaða tagi sem er. En það er mjög mikilvægt að þetta tiltekna mál komi fram vegna þess að við verðum að innleiða það sem Evrópuþingið og ráðið hefur samþykkt og við erum að fylgja því eftir á grunni EES-samningsins.