146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja o.fl.

457. mál
[20:50]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið sem mér heyrist vera heiðarlegt. Þetta er sem sagt innleiðingarmál og því ekki pólitískt frumkvæði að því leyti sem hefur verið gefið til kynna. Ég vil þá spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki væri eðlilegt um leið og það er mikilvægt að innleiða það sem við höfum skuldbundið okkur til að innleiða — og þetta er að mínu viti jákvætt mál, það má ekki misskilja mig þannig, en hér liggur fyrir tillaga frá þingflokki Vinstri grænna um að settur verði á laggirnar starfshópur sem hafi það að markmiði að semja frumvarp sem innleiði keðjuábyrgð á allan vinnumarkaðinn, ekki bara að setja sérákvæði um erlendan vinnumarkað heldur gera skýrar kröfur til alls innlends vinnumarkaðar. Er hæstv. ráðherra ekki sammála því að það sé bara réttast að samþykkja þá tillögu þannig að við séum að fara yfir allan vinnumarkaðinn með heildstæðum hætti? Félagsleg undirboð eins og við þekkjum, jú, við þekkjum þau kannski fyrst og fremst af umræðunni um erlenda starfsmenn. En við þurfum að horfa til framtíðar og lengri tíma í þessum efnum. Við getum ekki takmarkað þau við þjóðerni (Forseti hringir.) að mínu viti. Við þurfum að horfa á vinnumarkaðinn sem heild. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er ekki bara lag um leið og þingið tekur þetta til umræðu, sem er gott og jákvætt, að þingið afgreiði það mál sem liggur hér inni og gengur í raun lengra en þetta mál?