146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja o.fl.

457. mál
[20:59]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það þarf alltaf að spyrja þegar vandamál eru annars vegar: Er þetta lausnin? Nú er þetta frumvarp til laga um breytingar á sex mismunandi lögum. Þótt ég læsi ákvæði þess aftur á bak myndi ég ekki skilja neitt sérstaklega miklu betur um hvað málið snýst í samhengi laganna sem slíkra því að verið er að tína út orð hér og þar. Það er svipað og með lögin sem við vorum að lagfæra í upphafi þings; þar sem við náðum ekki samhenginu misstum við af villunum.

Hér er talað um að erlendir starfsmenn, fyrirtækin, þurfi að sýna ráðningarsamninga, launaseðla og vinnuskýrslur. Mér finnst þetta áhugavert með tilliti til frumvarps til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði. Er verið að fara jafnt að fólki, sem kemur hingað undir þessum skilyrðum, á vinnumarkaðnum? Hversu langt er í að þetta eigi við um alla sem vinna hérna? Af hverju er ekki verið að fara eins með allt vinnandi fólk á Íslandi? Af hverju útvega ekki allir launaseðla og vinnuskýrslur til Vinnumálastofnunar?

Svar við þeirri spurningu finnst mér vera frekar augljóst. Þá verður maður að spyrja sig: Af hverju þessir en ekki hinir?

Einnig vildi ég gera athugasemdir við orð hæstv. ráðherra um að þetta hefði ekki áhrif á ríkissjóð og þar af leiðandi væri ekki kostnaðarmat í frumvarpinu. Það er augljóst að mikil vinna þarf að fara fram í þessum stofnunum til að framfylgja þessum lögum. Það hlýtur að fylgja aukið álag starfsmanna sem hefur áhrif á (Forseti hringir.) þá fjármálaáætlun sem við erum að vinna með. Það þarf að vera kostnaðarmat, punktur. Óháð því hvort það passi innan ramma eða ekki.