146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja o.fl.

457. mál
[21:21]
Horfa

Dóra Sif Tynes (V):

Frú forseti. Mig langaði fyrst og fremst að koma hingað upp til að fagna því að þessu frumvarpi skyldi hafa verið hleypt á dagskrá og þakka þingheimi fyrir það. Ég held að um mjög mikilvægt mál sé að ræða.

Það kemur kannski ekki mörgum á óvart en mig langar að koma aðeins inn á nokkur álitaefni sem varða málið sem EES-mál. Enda er það svo eins og hæstv. ráðherra gerði grein fyrir í framsögu sinni að hér er fyrst og fremst um innleiðingu að ræða. Í fyrsta lagi langar mig að benda á að þrátt fyrir að sé eingöngu um innleiðingarmál að ræða eins og hefur verið komist að orði er málið engu að síður gríðarlega mikilvægt. Ég myndi telja að það sýndi ákveðna pólitíska forystu að freista þess að reyna að innleiða þær reglur sem hér um ræðir eins hratt og örugglega og kostur er. Reyndin hefur yfirleitt verið sú hér á landi að innleiðingar hafa frekar dregist en hitt. Mér þykir það því til marks um pólitískan áhuga í framsögu ráðherra að hér skuli reynt að uppfylla þessar skyldur eins fljótt og hægt er.

Um efnisatriði málsins og starfsmannaleigur almennt er það svo að að sjálfsögðu hefur starfsemi þeirra valdið nokkrum usla bæði innan EFTA-ríkja og þeirra Norðurlanda sem eiga aðild að ESB. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom inn á að það væri nú alvarlegt í þessu tilviki að Norðurlöndin með sína kjarasamninga væru að þessu marki bundin af evrópskum tilskipunum og jafnvel af sjálfum Evrópudómstólnum. Því er til að svara að í þessu tilviki erum við svo heppin að eiga frændþjóðir innan ESB sem hafa getað barist fyrir því að reglur um starfsmannaleigur hafa verið endurskoðaðar. Sú vinna skilaði m.a. af sér þeirri tilskipun sem hér er verið að innleiða. En að sjálfsögðu eigum við Íslendingar ekki kost á að taka þátt í þeirri löggjafarvinnu. Í þessu tilviki erum við því mjög heppin að eiga hauk í horni þar sem Norðurlandaþjóðirnar eru sem skilar sér í þessari tilskipun.

Aðeins um innleiðinguna. Hér er um að ræða samræmingarreglur. Þess vegna verður að fara mjög varlega þegar menn ætla að fara að skoða einhver séríslensk ákvæði því að við verðum að horfast í augu við að við erum partur af hinu Evrópska efnahagssvæði. Á því svæði gilda að mörgu leyti sömu reglur á vinnumarkaði. Nú höfum við svo sem fengið margar góðar reglur í gegnum það samstarf. Við höfum hér á þingi verið að fjalla um t.d. reglur sem varða jafnrétti og jafna stöðu fólks á vinnumarkaði, sem er vel. En alla vega verðum við að fara varlega í að fara að smíða í kringum tilskipunina einhver séríslensk ákvæði sem ekki halda fyrir dómi.

Virðulegi forseti. Ég tel þetta mál vera mjög mikilvægt. Ég tel að það hafi verið einstaklega farsæl ákvörðun að hleypa því að á dagskrá. Ég tel þetta mikilvægt og jákvætt skref í rétta átt.