146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja o.fl.

457. mál
[21:31]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er gott að þetta mál er komið hér inn þótt ég sé vissulega svolítið undrandi á því að það hafi ekki kannski verið að frumkvæði hæstv. félagsmálaráðherra heldur sé þetta fyrst og fremst innleiðing á EES-reglum, eins góðar og þær geta verið að mörgu leyti, sem snúa að réttindum á vinnumarkaði. Við þekkjum frjálsa för launþega innan EES og að gilda eigi kjör í því landi sem viðkomandi vinnur í. Við þetta hefur verkalýðshreyfingin glímt lengi.

Þetta frumvarp sem kemur hér inn finnst mér ekki ganga nógu langt. Hér hefur verið nefnd þingsályktunartillaga okkar Vinstri grænna sem ég er 1. flutningsmaður að ásamt öllum þingflokknum, þar leggjum við til að settur verði á fót starfshópur og starf hópsins taki mið af því að verkkaupar og aðalverktakar beri fjárhagslega ábyrgð á vanefndum undirverktaka á greiðslum opinberra gjalda, kjarasamningsbundinna launa og launatengdra gjalda, trygginga og annarra samningsbundinna greiðslna til launafólks og vegna þess og taki lagabreytingarnar til allra atvinnugreina. Þetta á að ná yfir allar atvinnugreinar. Það er lagt til að ráðherra leggi frumvarpið fram á 147. löggjafarþingi, þ.e. það verði tilbúið í haust.

Ég tel að þingmálið okkar, þessi þingsályktunartillaga, sé jafn mikilvægt nú eftir að þetta mál frá hæstv. félagsmálaráðherra er lagt fram sem er eingöngu innleiðing tilskipunar EES og lítur nákvæmlega eins út. Það er engu bætt við eins og ég skil það. Vissulega, eins og hæstv. ráðherra nefndi áðan, þá hafa verið viðræður á vinnumarkaði um þessi mál. Þar hafa komið að sveitarfélög og Samtök atvinnulífsins og ASÍ meðal annars. Það hefur komið fram sú gagnrýni að þetta mál sem ríkisstjórnin leggur fram gangi ekki nógu langt. Gagnrýnin hefur komið frá ASÍ, að það hafi verið skilningur þeirra í þessu samstarfi um að koma á keðjuábyrgð, að það væri hægt án þess að til kæmi lagabreyting að taka fleiri aðila vinnumarkaðarins inn í þá löggjöf sem hér liggur fyrir, sem er innleiðing vegna tilskipunar EES.

Eins og ég skil það þá þarf lagabreytingu eða nýja löggjöf ef fleiri aðilar verða settir undir keðjuábyrgð. Mér finnst það ekki nógu gott vegna þess að það er svo brýnt að ákvæðin nái til alls vinnumarkaðarins. Þetta er búinn að vera svartur blettur mjög lengi á íslenskum vinnumarkaði og sérstaklega eftir að starfsmannaleigur fóru að vera hluti af íslenskum vinnumarkaði þá hafa þessi vandamál aukist mjög mikið, að stunduð séu félagsleg undirboð og þeim fylgja alls kyns afleiðingar. Verkalýðshreyfingin hefur verið að reyna að ná utan um þetta mjög lengi.

Þær umsagnir sem hafa komið um þingmál okkar Vinstri grænna um að setja á starfshóp um keðjuábyrgð eru allar á einn veg, eru sammála um nauðsyn þess að hún nái yfir allan vinnumarkaðinn nema það er neikvæð umsögn frá Samtökum atvinnulífsins. Þar virðist vera einhver tregða við að þetta nái yfir allan vinnumarkaðinn.

Við vitum að það er ekki bara í byggingargeiranum og í starfsmannaleigum sem þessi vandi er uppi. Hér er fjöldinn allur af erlendu verkafólki sem vinnur því miður ekki eftir íslenskum kjarasamningum þótt atvinnurekendur þeirra séu þar með að brjóta lög á þessu fólki. Við verðum sem íslenskt réttarríki að tryggja réttindi þessa fólks og það að setja skýra löggjöf um keðjuábyrgð myndi gjörbreyta vinnuumhverfi þess.

Ástæða þess að Vinstri græn hafa lagt fram fyrrnefnt þingmál er þetta misferli á vinnumarkaði, það er verið að brjóta gegn skattalöggjöf og það eru líka þau félagslegu undirboð sem beinast sérstaklega að útlendingum og ungu fólki, fólki sem á kannski erfitt með að bera hönd fyrir höfuð sér. Með lögum um keðjuábyrgð verktaka er leitast við að koma í veg fyrir undirboð á vinnumarkaði, brot á ákvæðum kjarasamninga og vinnulöggjöf, félagsleg undirboð og ýmsar tegundir af skattsvikum og jafnvel mansali, en allt eru þetta afleiðingar þess ábyrgðarleysis sem hefur einkennt hluta íslensks vinnumarkaðar undanfarin ár.

Svört starfsemi sem þessi felur vitaskuld í sér brot gegn starfsfólkinu sem verður fyrir því að fá ekki laun sín greidd og samfélaginu öllu sem fær ekki sín réttmætu gjöld og grefur jafnframt undan samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem rekin eru á eðlilegum forsendum og virða lög um kjarasamninga. Hert lagaumgjörð sem treystir veiku hlekkina í ábyrgðarkeðjunni er öflugasta vopnið gegn félagslegum undirboðum og kennitöluflakki líka. Þess vegna tel ég svo mikilvægt að við sameinumst um að ganga alla leið með þetta.

Hér hefur verið nefnt það sem nýjustu fréttir herma, að hér séu mörg dæmi um erlendar rútur, frá Litháen að mig minnir, með starfsfólki sem jafnvel kemur hérna að nafninu til sem ferðamenn og viðkomandi fólki eru borguð allt of lág laun miðað við íslenska kjarasamninga. Eðlilega eru aðrir aðilar á vinnumarkaði sem vinna eftir íslenskum lögum og kjarasamningum ekki samkeppnishæfir við þá erlendu aðila sem koma hér inn með þessum hætti. Það er betra að grípa inn í strax áður en þetta fer að verða keðjuverkandi vandamál og dómínó gagnvart jafnræði og samkeppnisstöðu á vinnumarkaðnum. Ferðaþjónustan hefur auðvitað vaxið gífurlega og þar er þetta líka vandamál. Einnig má nefna atvinnugreinar eins og ræstingar. Ég vitna í viðtal við Halldór Grönvold hjá ASÍ þar sem hann ræðir þessi mál og segir að keðjuábyrgð sé við lýði víða í Evrópu. Í Noregi nái hún til byggingariðnaðar, mannvirkjagerðar og ræstinga.

Við vitum það að hér á Íslandi er orðinn ansi stór hluti fólks sem er af erlendum uppruna og kemur hérna jafnvel tímabundið og vinnur við ræstingar. Við þurfum að tryggja þessu fólki eðlilegt vinnuumhverfi og þau laun sem íslenskir kjarasamningar segja til um.

Það kom fram í umsögn embættis skattrannsóknarstjóra við mál okkar Vinstri grænna um keðjuábyrgð að 22 verktakafélög séu nú til rannsóknar hjá embættinu vegna gruns um að þau hafi reynt að komast undan lögbundnum skattgreiðslum með því að koma ábyrgð á greiðslum skatta yfir á undirverktaka. Samanlögð upphæð þessara mála nemur 2 milljörðum, sem sýnir hversu mikið er í húfi og hvað samfélagið getur verið að tapa miklum tekjum til sameiginlegra verkefna, fyrir utan svikin við launafólk.

Eins og hefur líka komið fram hérna í umræðunum eru nokkrir stórir verkkaupar hér á landi sem hafa þegar sett ákvæði um keðjuábyrgð í samninga sína, það er auðvitað til fyrirmyndar. Það eru m.a. Landsvirkjun, Ríkiskaup, Reykjavíkurborg og Akureyrarbær, sem hafa viðurkennt að þetta sé mjög mikilvægt og nauðsynlegt. Málið hefur verið tekið upp í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Það er mjög mikilvægt því það er ólíðandi að hér séu stunduð félagsleg undirboð og skattstuldur eigi sér stað gagnvart samfélaginu.

Ég tel að þetta mál þurfi góða og efnislega umfjöllun í velferðarnefnd og kalla þurfi fram vilja launþegahreyfingarinnar og kalla fram hvers vegna Samtök atvinnulífsins vilja ekki að þetta nái yfir allan vinnumarkaðinn. Hvað hræðast menn í þeim efnum? Vilja ekki allir að fyrirtækin vinni á sama grunni og séu samkeppnisfær, allir séu með sín mál á hreinu og borgi eftir viðkomandi kjarasamningum, engin mismunun sé á ferðinni og ekki látið líðast að einhverjir undirverktakar svíni á sínu starfsfólki? Stór og vönduð fyrirtæki eiga auðvitað ekki að fá þann stimpil á sig að vera með undirverktaka sem greiða langt undir lágmarkslaunum og brjóta á launþegum sínum. Það vill auðvitað ekkert alvörufyrirtæki leggja nafn sitt við það. Þessi fyrirtæki sem ég nefndi áðan hafa sýnt frumkvæði í að taka þetta upp og eflaust eiga fleiri fyrirtæki eftir að gera það vegna þess að það er ákveðið heilbrigðisvottorð fyrir viðkomandi fyrirtæki að það setji ekki nafn sitt við aðila sem svíkja undan skatti, brjóta á verkafólki og eins og því miður hefur komið í ljós hér hefur mansal jafnvel verið undirliggjandi.

Ísland er auðvitað orðið hluti af hinum stóra alþjóðlega vinnumarkaði, vinnuafl flæðir milli landa. Þegar Íslendingar fara til annarra landa og vinna þar, hvort sem það er tímabundið eða til frambúðar, þá treysta þeir því varðandi lagaumhverfi og kjarasamninga að þeim sé tryggð sú umgjörð sem er að lágmarki í viðkomandi landi.

Það kom fram í fréttum eins og nefnt hefur verið hér að flugfreyjur hjá ákveðnu flugfélagi eru á miklu lægri launum en kjarasamningar hjá okkar flugfreyjufélagi kveða á um. Flughöfnin hjá viðkomandi flugfélagi er frá Íslandi, svo auðvitað er það skylda að þær flugfreyjur og flugliðar njóti sömu kjarasamninga og gilda á Íslandi. Menn þurfa alls staðar að vera á varðbergi.

Ég tel mjög mikilvægt að þetta mál sé tekið upp heildstætt og unnið vel. Þingmál okkar Vinstri grænna verði unnið samhliða og menn gangi alla leið öllum til hagsbóta.