146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja o.fl.

457. mál
[22:19]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mín skoðun að sumir sögulegir harmleikir séu þess eðlis að þeim sé ekki endilega greiði gerður með að líkja þeim saman við aðra hluti sem okkur þykja einnig slæmir. Þess vegna hnaut ég eilítið um þann hluta í ræðu hv. þingmanns þegar hún nefndi þrælahald og þegar hún nefndi fullyrðingu sem mætti að einhverju leyti skilja sem svo að það hafi nú vel verið hugsað um þræla á sínum tíma vegna þess að þeir hafi verið verðmætir. Ég ætla ekki að þykjast halda því fram að þingmaður hafi með einhverju móti verið að bera blak af því sem þar átti sér stað, en hins vegar er mér það eilítið til efs að slíkur samanburður sé endilega heppilegur fyrir þessa umræðu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún sé raunverulega þeirrar skoðunar að aðstæður stórs hóps þeirra útlendinga sem kannski flytja hingað til lands eða eru jafnvel fluttir séu með einhverju móti sambærilegar eða jafnvel verri og þær aðstæður sem umræddur þjóðfélagshópur lifði við vestan hafs á sínum tíma. Mig langar að fá viðbrögð þingmannsins við þessum hugleiðingum mínum.