146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja o.fl.

457. mál
[22:20]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það hrökkva margir við þegar þessar aðstæður á vinnumarkaði eru nefndar nútímaþrælahald. Það er ekki alltaf sem nefna má hlutina réttum nöfnum. Það sem ég var að vekja athygli á, ég var ekki að bera blak af þrælahaldi hvorki fyrr né síðar og alls ekki nú, en það sem ég var að vitna til er erindi sem var flutt í fundarsal Þjóðminjasafnsins fyrir tveimur árum eða svo þar sem var dreginn upp þessi samanburður annars vegar á mati á verðmæti eins þræls þá og aftur nú. Það var evrópsk stofnun sem gaf út þessar tölur. Nú kann ég ekki lengur að rekja nákvæmlega hvað það var, en þetta var sláandi samanburður. Dæmi voru dregin upp um árstíðabundin störf, m.a. kafara, ungra drengja sem eru látnir kafa eftir tilteknum skeljum, en þegar vertíðin er búin þá eru þeir bara skildir eftir á eyjunni. Svona dæmi, skiljiði, voru dregin þarna upp. Það var það sem ég var að nefna. Ég var alls ekki að bera blak af þrælahaldi. Við fordæmum þrælahald, bæði í þátíð og nútíð, og ég tala nú ekki um framtíð. Við skulum bindast samtökum um að koma í veg fyrir það.