146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja o.fl.

457. mál
[22:23]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get verið sammála hv. þingmanni um að mikilvægt er að vanda orðaval og það má alls ekki gengisfella orð eins og þrælahald. Það var ekki ætlun mín hér. Ég var aðeins að vekja athygli á því að við höfum ekki séð það versta hér á landi í þeim málum sem við erum að fjalla um hér, sem er nauðungarflutningur, ég kalla það nauðungarflutning þegar menn eru ekki frjálsir að því að fara til baka vegna þess að þeir hafa ekki einu sinni passann sinn, þeir hafa ekki nafnið sitt, eins og tíðkast hefur í Danmörku, og búið er að skrifa mikið um. Þar er beinlínis gert út á velferðarkerfið, menn eru látnir sækja í það, sótt er um bætur og greiðslur í nafni viðkomandi án þess að þeir njóti þess á einn eða annan hátt. Við þurfum bara að vera á varðbergi. Það er ekki gott að hægt sé að „legitimisera“, ef ég má segja sem svo, undirboð, félagsleg undirboð á vinnumarkaði, með starfsmannaleigum (Forseti hringir.) eða nútímaþrælahaldi eins og við þekkjum frá Norðurlöndunum alla vega.