146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja o.fl.

457. mál
[22:25]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sá sem hér stendur þekkir ekki gjörla og ítarlega til þess frumvarps sem við erum að fjalla um hér í kvöld. Þetta er EES-tilskipun sem okkur ber að innleiða og við höfum sennilega litla möguleika á að hafa áhrif á innihald þess eins og það lítur út, a.m.k. ekki efnislega. Við erum aðilar að EES. Okkur ber að innleiða þessa tilskipun og við höfum verið sein til þess í þau 25 ár sem við höfum verið aðilar að því samstarfi, við höfum að jafnaði verið heldur sein til að innleiða tilskipanir sem okkur ber að innleiða, eins og það hefur nú veitt okkur mikla velsæld að vera í þessu samstarfi. Það hafa nefnilega umtalsverðar félagslegar bætur, réttindabætur og vinnuréttarleg atriði borist okkur að utan. Því verður ekki neitað.

Varðandi það sem við köllum keðjuábyrgð þá er það nú svo að það er sama hversu þykka doðranta af reglugerðum við samþykkjum, þingsályktunartillögur eða þess vegna lög sem við búum til ef vilji og ásetningur til að fara á svig við þessar reglugerðir og þennan ramma sem við setjum okkur er fyrir hendi. Því miður er hann einbeittur meðal Íslendinga, ekki eingöngu útlendinga. Við þurfum að rækta með okkur betra siðferði, meiri mannvirðingu. Um það snýst þetta að hluta til.