146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja o.fl.

457. mál
[22:30]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Mig langar að byrja á að vekja athygli þingheims á nýju blaðformati sem þingskrifstofan býður upp á. Þetta er komið út úr A-formatinu, ég veit ekki hvort þetta er tilraun til að koma okkur aftur á það stig að búa til rollur, eða hvað það hét; hér eru gerðar kröfur um að við séum tiltölulega gamaldags í klæðaburði þannig að það getur verið að þetta sé tilraun til þess, ég veit það ekki.

Frú forseti. Þetta er mikilvægt mál sem hér er komið fram þó að seint sé. Markmiðið er mjög göfugt, þ.e. að tryggja laun og önnur kjör erlendra starfsmanna sem sendir eru tímabundið til Íslands. Það kemur fram að málið er unnið í samstarfi við ASÍ, BHM, BSRB, Samband íslenskra sveitarfélaga, ef ég man rétt, Samtök atvinnulífsins og í samvinnu við fjármálaráðuneytið, líklega. Málið er hins vegar flókið og vandmeðfarið.

Hér hefur margoft komið fram og jafnvel í flestum ræðum að það gangi ekki nógu langt. Íslenska þjóðin er fámenn og við erum mjög háð því, í því sveifluhagkerfi sem við búum við, að fá hingað erlenda starfsmenn. Mig minnir að lægst hafi þetta hlutfall verið á síðustu árum 8,4% árið 2008 og nú er það komið upp í 10,3%. Það er alveg viðbúið að þetta geti orðið enn meira á því uppbyggingarskeiði sem ekki sér fyrir endann á þrátt fyrir að ríkisstjórnin mætti kannski gera enn betur í innviðauppbyggingu. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að við ræðum þessi mál og tryggjum réttindi þeirra sem hingað koma til starfa, auðvitað fyrst og fremst til að gæta að mannréttindum þannig að við stöndum undir nafni sem siðað samfélag, en ekki síður til að vernda íslenskt launafólk. Félagsleg undirboð er fyrirbrigði sem sjálfsagt hefur alltaf þekkst en er að færast í aukana.

Ég var fyrir tveimur mánuðum í Noregi á fundi með systurflokkum Samfylkingarinnar á Norðurlöndunum. Þar voru tvö mál helst á dagskrá; annað þeirra var framtíðin og hvernig hún er að gjörbreyta öllu umhverfi launamanna og þátttöku á vinnumarkaði, og ekki síður þeim félagslegu undirboðum sem grassera. Það er hárrétt, sem kom fram í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, að þetta einskorðast ekkert við byggingariðnaðinn þó að hann hafi kannski verið mest áberandi í þessu sambandi í aðdraganda hrunsins. Ég man, af því að ég vann nú sjálfur í þeim geira, að það fór býsna mikið í taugarnar á mér að það var alveg sama um hvaða atvinnugrein var rætt, þegar frétt var um brot gegn starfsmönnum sá maður alltaf dinglandi byggingarkrana í mynd.

Ég tók einmitt eftir því í fréttum í síðustu viku, þegar verið var að fjalla um nákvæmlega þetta sama mál, brot gegn erlendum starfsmönnum, í því tilfelli jafnt í ferðaþjónustunni sem öðru, að áfram dinglaði byggingarkrani á fullu í mynd. Auðvitað er ástæða fyrir því að hann er orðinn symból fyrir þetta, en við þurfum að gæta okkar á því að þetta á sér ekki bara stað þar. Þetta er víðar. Eins og kom fram í sömu ræðu og ég vitnaði í áðan eru miklar líkur og hætta á að þetta geti ekki síður grasserað í þeirri atvinnugrein sem er mest vaxandi á Íslandi, í þeirri atvinnugrein sem stendur á bak við innflutning á flestum erlendum starfsmönnum og ræður til sín flesta erlenda starfsmenn.

Þetta er spurning um að hlúa að launafólki á Íslandi ekki síður en erlendu þó að þessi tilteknu lög taki bara til þess; ég kem betur inn á það síðar. Það er alltaf að koma betur og betur í ljós að jöfnuður er í raun lykilatriðið ef þú ætlar að byggja upp öflugt, samkeppnishæft, framfaradrifið samfélag. Það er grein á Eyjunni, stutt brot, þar sem Egill Helgason vísar í rannsóknir á sænsku efnahagslífi og könnun eða rannsókn sem Bloomberg gerði sem sýnir einmitt nákvæmlega þetta. Þetta þurfum við að standa vörð um.

Það er hárrétt, sem kom hér fram áðan, að hinn norræni vinnumarkaður og hið norræna vinnumarkaðsmódel er að mörgu leyti mjög fullkomið og gott. Við eigum ekkert að láta okkur nægja að gera bara það sem þykir ásættanlegt í Evrópusambandsríkjunum. Við eigum að stefna hærra. Hins vegar er þetta innleiðingarfumvarp og við megum ekki loka augunum fyrir því að þaðan hafa komið mjög góðar réttarbætur, ekki síst hvað varðar félagsrétt og vinnurétt. Ég er sammála hv. þm. Álfheiði Ingadóttur að það er sama hvaðan gott kemur, við eigum að nota það, en við getum jafnvel gert enn betur.

Þess vegna styð ég að mörgu leyti hugsunina og inntakið í frumvarpinu. Ég vona að það fái vandlega meðferð og mikla umræðu og að við gerum þær lagfæringar sem við viljum og teljum að gera þurfi á því. Að því slepptu tel ég að til viðbótar ættum við að skoða vel og afgreiða þingsályktunartillögu þingflokks Vinstri grænna um starfshóp um keðjuábyrgð, vegna þess að það tekur í raun á heildarumhverfinu hér í landinu, ekki eingöngu þeim erlendu starfsmönnum sem hingað koma og jafnvel ekki einu sinni öllum þeim. Mér skilst að frumvarpið nái fyrst og fremst til þeirra sem vinna á vegum stafsmannaleigna eða koma í einhverjum grúppum inn, en hingað kemur auðvitað fjöldi erlendra starfsmanna á eigin vegum. Það væri sómi af því ef þingið myndi samhliða umfjöllun um þetta frumvarp, hvort sem það klárast eða fer í áframhaldandi vinnslu, vinna með þetta og samþykkja það. Það er gríðarlega mikilvægt.

Hér hefur komið fram að þó svo að í þessu frumvarpi sé ákvæði um keðjuábyrgð og hér sé stigið mjög tímabært skref þá nær það ekki nógu langt. Við erum talsvert á eftir öðrum hér á Íslandi. Hér hefur komið fram að meðal fyrirtækja hefur Landsvirkjun innleitt reglur af þessu tagi, Reykjavíkurborg hefur gert það, Akureyrarbær hefur gert það og þess vegna hljótum við að horfa til þess að Alþingi setji líka slík lög.

Mér finnst það áhugavert og umhugsunarvert sem kom fram í máli hv. þingmanna Álfheiðar Ingadóttur og Steingríms J. Sigfússonar að það þarf að passa að þessi lagasetning takmarki ekki á nokkurn hátt þær reglur sem aðrir hafa sett til að koma enn betri skikk á málið. Ráðherra svaraði því reyndar mjög afdráttarlaust að þær gerðu það að ekki, (Gripið fram í.) ég trúi því að svo sé, en ég held að rétt sé að athuga það því að það komu hér fram áhugaverðar ábendingar hvað varðaði samkeppnislagabrot. Nú er ég ekki lögfróður og hér inni eru einstaklingar sem eru það, þeir geta þá kannski svarað því, en þetta er alla vega eitthvað sem við þurfum að hugsa um. Það væri þá til lítils unnið ef þessi framfarasinnuðu sveitarfélög sætu uppi með eitthvað sem þau gætu ekki notið.

Eins og ég kom inn á áðan eru blikur á lofti hvað varðar framtíðina; hér eru hlutir að breytast gríðarlega. Ég hef talað svo oft um það á þeim stutta tíma sem ég hef verið hér að ég er orðinn leiður á því. Ég verð samt að minnast á þá brjálæðislegu tæknibyltingu sem við þurfum að horfast í augu við; menn eru ekki eingöngu að finna upp vélar og tæki sem koma í stað vöðvaafls, eins og var í iðnbyltingunni á 19. öld, heldur eru menn að búa til maskínur sem leysa hugaraflið að einhverju leyti af hólmi og það verða ofboðslegar breytingar á vinnumarkaði. Störf hverfa, störf breytast og önnur verða til, en það er algjörlega ljóst, held ég, að vinnuvikan mun styttast, hún mun breytast. Við eigum því ofboðslega mikið undir því að vernda réttindi launamanna.

Við höfum öll heyrt sögurnar af því þegar afar okkar, jafnvel feður einhverra, stóðu niðri á bryggju með sixpensara í hönd og biðu eftir að verkstjórinn pikkaði þá út og réði þá í daglaunavinnu og borgaði þeim svo skilding í lok dags. Þetta var liðin tíð. Nú er þetta því miður að endurtaka sig, nema nú stendur fólk ekki með derhúfurnar og bíður auðmjúkt eftir því að einhverjum þóknist að kalla það í dagsvinnu eða í tveggja til þriggja klukkutíma vinnu. Nú er liðið með farsímann í hendinni og bíður eftir að fá tilfallandi tilboð. Þessi þróun er í raun mjög hröð. Við þurfum þess vegna að vinna vel, vinna hratt og setja víðtækari lög sem tryggja réttindi launafólks.

Ég er líka sammála því að það er fráleitt, eins og ég kom inn á áðan, að þessi keðjuábyrgð nái eingöngu til byggingarstarfsemi af því að hugmyndaríkt fólk finnur alltaf leiðir til að græða peninga og nýta sér ógæfu annarra, jafnt í byggingariðnaði sem annars staðar. Flest erum við reyndar þokkalega af guði gerð, en við þurfum hins vegar að hafa aðhald þannig að við álpumst ekki út í einhverja vitleysu.

Ég endurtek það að ég tel að áfram eigi að vinna og láta slíkt frumvarp líka ná til innlends vinnumarkaðar; og skoðum endilega þingsályktunartillögu Vinstri grænna. Að þeim orðum sögðum læt ég máli mínu lokið. Takk fyrir.