146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

stytting biðlista.

[15:04]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Forseti. Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra um tvennt. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er talað um að sérstakt átak verði gert til að stytta biðtíma eftir þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Síðasta ríkisstjórn réðst raunar í átak um að stytta biðlista og fram kom síðastliðið haust að það átak væri farið að skila árangri; að bið eftir bæklunaraðgerðum hefði styst, sömuleiðis bið eftir augnaðgerðum og hjartaaðgerðum. Þetta koma fram hjá forstjóra Landspítala – háskólasjúkrahúss. Þessi árangur hafði ekki síst náðst innan þjóðarsjúkrahússins en líka hjá öðrum þeim sjúkrahúsum sem starfrækt eru í landinu.

Einfaldasta leiðin til að stytta biðlistana er að styðja við þau sjúkrahús sem geta ráðist í þær aðgerðir þar sem langur biðlisti er.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um tvennt, hvort hann telji, og hvort hann sé ekki sammála mér um það, að það sé einfaldasta leiðin til að ná markmiðinu um að stytta biðlista að styðja við Landspítalann, Sjúkrahúsið á Akureyri og þau fjórðungssjúkrahús þar sem hægt er að ráðast í slíkar aðgerðir ef fjármagn fylgir. Og þurfi hæstv. heilbrigðisráðherra einhvern stuðning til þess þá get ég fullvissað hann um að þann stuðning er að finna hér í þingsal og hjá þjóðinni allri því að biðlistarnir eru auðvitað skelfilegir fyrir það fólk sem þarf að bíða lengi eftir aðgerðum sem það sárlega þarf að komast í.

Hitt er svo að af einhverjum ástæðum hefur umræðan um biðlista snúist upp í umræðu um að vandi þess fólks sem bíður verði ekki leystur nema með aðkomu einkaaðila, sem dregur kannski athyglina frá því að fyrst og fremst þarf að tryggja fjármagnið í að stytta biðlistana. Þessi umræða um rekstrarform var tekin upp í umræðuþætti í ríkissjónvarpinu í gær og þar sagði ráðherra að hann teldi að setja þyrfti lög um rekstur sérhæfðra sjúkrahúsa og vísaði þar til þess að landlæknir og heilbrigðisráðuneytið væru ekki á eitt sátt um túlkun heilbrigðislaga. Þegar ég les lögin þá er raunar ávallt talað um að sérhæfð heilbrigðisþjónusta verði ekki rekin nema með ákvörðun ráðherra, sem virðist vera ansi skýrt í mínum augum. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hverju þarf nákvæmlega að breyta? Hvaða heimildir (Forseti hringir.) telur hæstv. ráðherra að hann þurfi að hafa sem hann hefur ekki nú þegar?