146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

skipan dómara í Landsrétt.

[15:14]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Mér finnst ekki tímabært að ræða skipan dómara við Landsrétt á þessu stigi. Hér er vísað til fréttar í vefmiðli, fréttar sem ég þekki ekki til en sá því fleygt að þar var birtur einhver listi. Ég hef ekki borið hann saman við þau gögn sem mér hafa verið veitt til upplýsingar á þessu stigi málsins frá hæfnisnefndinni. Það liggur fyrir að staða málsins er sú að nefnd sem falið er að meta hæfni umsækjenda hefur lokið störfum og sent drög að umsögn sinni til umsagnar til allra umsækjenda um stöðurnar. Málið er þar með þar statt, það er enn til umsagnar hjá umsækjendum. Enn liggur ekki fyrir nein endanleg afurð sem nefndin hefur skilað af sér í formi umsagnar eða álits. Ég á von á að fá slíkt álit mögulega undir lok þessarar viku eða í byrjun þeirrar næstu. Ég tel alls ekki tímabært að ræða þessa stöðu neitt frekar.

Ég get hins vegar vonandi haldið því fram að valnefndin hafi, eins og aðrar nefndir, haft í huga þau lög sem eru í gildi og farið eftir því verklagi sem fyrir hana er sett, þ.e. að meta umsækjendur, meta hæfni umsækjenda. Ég á ekki von á öðru en að hún hafi gert það.