146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

skipan dómara í Landsrétt.

[15:16]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Þetta þykja mér undarlegar staðhæfingar hjá hæstv. dómsmálaráðherra þar sem fullyrt er í fréttinni í Kjarnanum að þetta sé sá listi sem liggi fyrir og sé val þessarar nefndar. Á sama tíma er þar að finna uppfærslu frá ráðuneyti hæstv. dómsmálaráðherra, þ.e. dómsmálaráðuneytinu, þar sem komið er á framfæri upplýsingum um að hæfnisnefndin hafi ekki lokið störfum sínum, þ.e. eigi eftir að skila inn umsögn um málið, en því er ekki mótmælt sérstaklega að þetta séu þeir sem urðu fyrir valinu. Þess vegna veit ég ekki alveg hvað hæstv. ráðherra er að meina með þessu.

En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra aftur: Ef sú verður raunin að þetta sé listinn, sem virðist nú vera, mun ráðherra beita 12. gr. laga um dómstóla, sem gefur ráðherra heimild til þess að skipa aðra aðila sem uppfylla þau skilyrði sem er að finna í 21. gr. laga um dómstóla, þ.e. að leggja fram ný nöfn til að tryggja jöfn kynjahlutföll í okkar nýja dómstól?