146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

nefnd um gjaldtöku í sjávarútvegi.

[15:18]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Gefum okkur að hæstv. sjávarútvegsráðherra byði mér far með ráðherrabíl sínum á mikilvægan fund austur á landi. Þar sem ég stæði á gangstéttinni og biði eftir henni laumuðust tveir óprúttnir menn að bílnum, annar styngi gat á afturdekkið með sporjárni en hinn göt á bensíntankinn. Þæði ég far með slíkum bíl, hæstv. ráðherra, tæki ég séns á að bensínið myndi duga á loftlitlum dekkjum, eða reddaði ég mér öðruvísi austur?

Í kosningabaráttunni talaði Viðreisn eindregið fyrir markaðsleið í gjaldtöku í sjávarútvegi og í stjórnarsáttmálanum er talað um að kanna kosti þess að í stað ótímabundinnar úthlutunar verði byggt á langtímasamningum og að samhliða verði unnið að mati á þeim kostum sem tækir eru, svo sem markaðstengingu, sérstöku aðkomugjaldi eða öðrum leiðum. Ráðherra hefur nú skipað nefnd með fulltrúum allra flokka sem á að ná saman um lausn. Verkefnið er mikilvægt en snúið og nauðsynlegt að allir komi heilir að þeirri vinnu.

Fyrir helgi heyrði Mogginn hljóðið í þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Einn sagði, með leyfi:

„Menn eru ekkert að stressa sig á þessu, því komi nefndin með tillögur um grundvallarbreytingar, þá verða þær einfaldlega stöðvaðar í þinginu. Þetta er nú ekki ýkja flókið.“

Annað:

„Við látum ekki eyðileggja gott kerfi, þótt við séum vissulega opnir fyrir einhverjum breytingum, svo sem á reglum um framsal og veiðiskyldu.“

Þótt fall sé fararheill eru þetta ekki sérstaklega góð fyrirheit. Þar sem ég á sæti í nefndinni langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Er ráðherra sannfærður um að allir þingflokkar gangi heilir til þessarar vinnu? Er formaður Viðreisnar sammála mér um að það sé óþægilegt og dragi úr trausti á starfi nefndarinnar að stjórnarþingmenn Sjálfstæðisflokksins séu stóryrtir í fjölmiðlum áður en fyrsti fundur nefndarinnar er haldinn?