146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

nefnd um gjaldtöku í sjávarútvegi.

[15:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Hv. þingmaður beinir til mín erfiðri spurningu: Tæki hann sénsinn á því að fara á gölluðum bíl eða ekki? Nú verð ég að játa að ég þekki ekki áhættusækni hv. þingmanns nægilega vel til að geta svarað þessari spurningu, en ég er ekki viss um að bíllinn myndi keyra mjög langt ef búið væri að stinga göt á dekkin. Ég sá þetta gerast t.d. í Vaðlaheiðargöngum um daginn, þar var bíll á undan okkur og greinilega sprungið á dekki. Þar var fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar á ferð og keyrði a.m.k. einn og hálfan kílómetra á þessu sprungna dekki, þannig að kannski tæki hann þennan séns.

Ganga allir heilir? Já, ég er viss um að það ganga allir heilir til þessa verks. Ég er sannfærður um það. Svo spyr hv. þingmaður hvort mér finnist óþægilegt að menn tali á móti starfi nefndarinnar áður en það hefst. Mér myndi finnast óþægilegra ef menn töluðu á móti starfi nefndarinnar eftir að það hefst.