146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

nefnd um gjaldtöku í sjávarútvegi.

[15:21]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Þetta var athyglisvert, bíllinn keyrir sem sagt ekki langt á felgunni og nefndin hefur ekki hafið störf. Mér finnst furðulegt að hæstv. ráðherra finnist það ekki óhentugt að stjórnarflokkarnir tali út og suður. Það er meðal annars ein af ástæðunum fyrir því að ég er tvístígandi varðandi þessa vinnu, það er sundurleitnin á stjórnarheimilinu. Þar er hver höndin upp á móti annarri og samræður virðast ekki fara fram með formlegum hætti og dönnuðum eins og talað er um að þessi nefnd geri, heldur á hún sér gjarnan stað í bloggi á síðum dagblaðanna, í sjónvarpi og útvarpi. Formenn stjórnmálaflokkanna tala út og suður um gjaldmiðilinn, jafnlaunavottun er í uppnámi og utanríkisráðherra segir að Evrópumál séu ekki lengur á dagskrá íslenskra stjórnmála.

Er þetta háttalag ekki ávísun á óbreytt ástand og frestun mála? Eða er það kannski tilgangurinn með því að beina málinu í þennan farveg að losna sjálf við að standa við kosningaloforð?