146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

kaup vogunarsjóðs á hlut í Arion banka.

[15:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Virðulegi forseti. Því er til að svara að ég hef oft haft orð á því að það skiptir mjög miklu máli hver á bankana, hver á önnur fjármálafyrirtæki og orðsporsáhætta er mikil á þessu sviði. Við á Íslandi erum brennd að því leyti að við fórum hér í gegnum umræðu um daginn þar sem kom í ljós að fjölmargir aðilar höfðu verið blekktir. Fjármálaeftirlitið hafði verið blekkt, við höfum fengið Ríkisendurskoðun sem gaf út álit á eignarhaldi á einum bankanum og kom í ljós að það álit var hreinlega rangt þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar um annað.

Tel ég að það sé gott að það séu margir eigendur í ruslflokki? Nei, auðvitað tel ég að það væri best að hér væri sem mest af eigendum sem landsmenn almennt gætu borið ríkt traust til. Það sem ég sagði þegar þessi kaup voru tilkynnt var að það væri ánægjulegt að heyra að vogunarsjóðir tækju veðmálið með Íslandi en ekki gegn Íslandi eins og gerðist fyrir hrun. Við þau orð stend ég vissulega en ég hef beint því til Fjármálaeftirlitsins eins og hv. þingmaður veit að upplýsa betur um kaupendur að þessum hlutum. Það svar sem kom fyrst var ófullkomið. Miðað við þær upplýsingar sem þá lágu fyrir gat Fjármálaeftirlitið ekki svarað ítarlegar. Ég veit að nokkrir af kaupendum hafa lagt inn ítarlegri erindi til Fjármálaeftirlitsins og í kjölfarið vænti ég þess að það muni gefa skýrslu og meta hæfi einstakra kaupenda.