146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

salan á Vífilsstaðalandi.

[15:56]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Þegar stjórnvöld sýsla með takmörkuð gæði verður að gera ríka kröfu til þess að það sé gert af ábyrgð, sanngirni, og með almannahagsmuni að leiðarljósi. Stjórnvöldum hefur því miður oft verið legið á hálsi hér á landi að hafa verið mislagðar hendur, ákvarðanir verið illa ígrundaðar, lítil rökstuddar og kvittur um frændhygli og klíkuhugsun jafnvel sögð ráða för sem hafa gert slíkar ákvarðanir tortryggilegar. Án þess að nokkuð slíkt sé fullyrt um ástæður fyrir þessari sölu er ljóst að hún kom nokkuð í opna skjöldu og var ekki sérlega vel rökstudd. Þá er kaupverðið Garðabæ mjög hagstætt. Landið var áður í umsjón Landspítalans, en fjármálaráðuneytið tók lóðina til sín árið 2014.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, hefur gagnrýnt harðlega þá ákvörðun að ráðuneytið flytti einhliða og án umræðu umsjón með landinu frá spítalanum. Hann gerði þá kröfu fyrir hönd Landspítalans að ákvörðunin yrði afturkölluð og sett yrði af stað stefnumótun til langrar framtíðar um notkun landsins til heilbrigðisþjónustu. Eðlilega vakna því spurningar um hvort í sölunni birtist nægileg framsýni eða hvort hún geti komið stjórnvöldum í koll síðar.

Garðabær fyrirhugar nú að efna til samkeppni um skipulag á svæðinu þar sem gert er ráð fyrir 1.200–1.500 íbúðum. Ef þetta útspil ráðherra er leið til að greiða fyrir íbúðauppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu er ekki úr vegi að spyrja hann að eftirfarandi:

Telur hæstv. ráðherra að salan og verðið gefi fordæmi gagnvart öðrum ríkislóðum?

Er ráðherra tilbúinn til að selja auðar lóðir í Reykjavík undir íbúðabyggð eins og margoft hefur verið beðið um og létta þannig þrýstingi af Vatnsmýraruppbyggingu á meðan farsæl lausn er fundin á málefnum innanlandsflugs?

Eða ætlar hann að gera eins og forveri hans í starfi, neita að aðstoða Reykjavíkurborg í þeirri miklu húsnæðisuppbyggingu sem þar á sér stað?