146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

salan á Vífilsstaðalandi.

[16:01]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Frú forseti. Það er ótvírætt að skipulagsvaldið innan hvers sveitarfélags er á forræði þess sjálfs og ekki ástæða til að grípa inn í það eða skerða í þessu tilviki frekar en öðrum. Því væri ekki rétt að standa í vegi fyrir áformum Garðabæjar um þéttingu byggðar og aukið lóðaframboð.

Varðandi lögmæti sölunnar fór hæstv. fjármálaráðherra vel yfir það að heimildir til sölunnar eru ótvíræðar og óþarfi að víkja mörgum orðum að því. Eins og alþjóð veit eru hafnar framkvæmdir við byggingu á nýjum Landspítala við Hringbraut og það er stefnt að því að 1. áfangi verði tekinn þar í notkun árið 2023. Því er ansi langt seilst að fara að taka frá og fastsetja land undir annan nýjan spítala sem að líkindum munu varla hefjast framkvæmdir við fyrr en að áratugum liðnum. Fram að þeim tíma mun væntanlega ýmislegt gerast í byggð og skipulagi höfuðborgarsvæðisins þannig að það er nokkuð langt seilst að ákveða að þetta sé eini staðurinn sem hægt er að byggja á eða að Vífilsstaðir séu eini rétti staðurinn.

Síðan er hægt að nefna að sveitarfélögum er skylt að leggja lóðir undir mannvirki sem eru ætluð til heilbrigðisþjónustu þannig að heimildir eru í lögum, (Forseti hringir.) en að mínu mati er salan á þessu landi ekki tilefni til mikilla deilna eða stórra yfirlýsinga heldur tel ég hana fullkomlega eðlilega.