146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

salan á Vífilsstaðalandi.

[16:03]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með frummælanda, hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni, að margt sé hér óljóst varðandi sölu ríkisins á jörð Vífilsstaða. Vissulega vakna upp margar spurningar, sér í lagi um söluandvirðið, 560 millj. kr., sem Garðabær á að greiða út á næstu átta árum ásamt 100 millj. kr. við undirskrift.

Það þýðir að Garðabær borgar fyrir þessa verðmætu jörð alls 57,5 millj. kr. á ári næstu átta árin. Það er gjafverð, frú forseti, og hlýtur að vera einn arfaslakasti samningur sem hæstv. núverandi fjármálaráðherra hefur gert á sínum stutta ferli í fjármálaráðuneytinu fyrir hönd ríkissjóðs okkar allra. En líklega er þetta einn allra besti samningur sem fyrrverandi formaður skipulagsnefndar Garðabæjar og núverandi forsætisráðherra hefur beitt sér fyrir fyrir sinn heimabæ, enda ákvað núverandi forsætisráðherra að sölsa jörðina, frá Landspítalanum, undir ríkið árið 2014 eins og hér hefur verið rakið. Það vekur líka furðu og spurningar um það hvers vegna salan nú var ekki rædd með nokkrum hætti á vegum þingsins heldur var gengið frá henni á síðasta vetrardegi í kyrrþey án umræðu og án nokkurra upplýsinga.

Það eru góð og falleg fyrirheit sem forsvarsmenn Garðabæjar hafa uppi um uppbyggingu svæðisins, íbúum til handa, en er sú uppbygging til handa ungu fólki og þeim tekjulægstu? Það er sá samfélagshópur sem er í mestri og brýnustu þörf fyrir viðunandi húsnæði eins og allir vita.

Frú forseti. Ég leyfi mér að efast stórlega um að ríkið hafi liðkað fyrir því að leysa með þessum samningi brýna og afar aðkallandi þörf fyrir viðunandi húsnæði fyrir þennan samfélagshóp.

Nei, frú forseti, markaðurinn á að ráða, Garðabær á að græða enn meira enda um að ræða eitt ríkasta sveitarfélagið á landinu, en ungt fólk og hinir tekjulágu eru í hugsanlegri hættu á að tapa og engin sýnileg trygging fyrir því að þessum hópi séu (Forseti hringir.) tryggðar lausnir á sínum vandamálum. Ég er ansi hrædd um að hér sé á ferðinni fúsk og ógagnsæi sem er ekki það sem núverandi ríkisstjórn lagði upp með eftir því sem ég hef lesið og kynnt mér.