146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

salan á Vífilsstaðalandi.

[16:08]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í fjárlögum er talað um landspildur í Garðabæ. Það eru engar aðrar landspildur til umræðu en Vífilsstaðir, það eru engar aðrar landspildur í Garðabæ sem málið snýst um, það eru bara Vífilsstaðir. Það er því mjög undarlegt að sjá þessa setningu í fjárlögum, þ.e. heimild til að selja landspildur í Garðabæ. Það hefði þá átt að tiltaka sérstaklega land Vífilsstaða. Ég pæli í því hvort þetta sé heiðarleg framsetning.

Þessi lagagrein, heimild til sölu, á væntanlega við ef ekki er selt til sveitarfélaga enda vísaði hæstv. ráðherra í aðra lagagrein um að selja mætti sveitarfélögum. Það er þá ákveðin spurning hvort sveitarfélög eigi að hafa betri kjör við kaup á landi ríkisins. Ég velti því upp hvort einhver lög heimili framkvæmdarvaldinu að bjóða sveitarfélögum upp á betri kaup og kjör en fyrirtækjum og einstaklingum.

Eitt sem kom fram á fundi fjárlaganefndar um daginn um þetta mál voru tekjur af leigu lóða, það eru leigutekjur af lóðum sem þarna um ræðir. Meðal annars eru ákveðnar leigutekjur af golfvellinum sem renna í starfsmannasjóð lækna eða eitthvað því um líkt, það væri mjög áhugavert að heyra meira um hvort þar sé eðlilega farið með almannafé.

Spurt var um það á fundi fjárlaganefndar hvort einhver fordæmi væru fyrir svona sölu. Það var lítið um svör. Það væri gott að fá nákvæmari útlistun á því hvort búið sé að grafa upp upplýsingar um það. Við báðum um minnisblað vegna þess en höfum ekki fengið það enn þá.

Það má vel vera að þetta fari allt vel, að allir sem hafi hag af málinu fái góða niðurstöðu, en það væri hins vegar glapræði að hunsa söguna. Þessu máli þarf að fylgja vel eftir þannig að hagur almennings sé tryggður með sölunni en ekki sérhagsmunir. Okkar verk er að gæta hags allra. Þetta er klárlega mál sem þarf að fylgjast með í framtíðinni.