146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

salan á Vífilsstaðalandi.

[16:11]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Til viðbótar spurningum um sölu ríkisins á Vífilsstaðalandið til Garðabæjar um verðið og hvers vegna ekki var miðað við markaðsverð, um skiptinguna á tekjum ef Garðabær selur lóðir og hvort skiptingin sé styrkur til Garðabæjar og hvers vegna þurfi að styrkja það bæjarfélag sérstaklega, og fleiri spurningum sem bornar hafa verið upp hér við þessa umræðu, þarf einnig að ræða spurningar um 6. gr. fjárlaga og þær rúmu heimildir sem fjármála- og efnahagsráðherra eru veittar með samþykkt hennar.

Margvíslegar heimildir eru veittar með 6. gr. fjárlaga; um eftirgjöf gjalda, sölu húsnæðis, sölu eignarhluta af húsnæði, lóða og jarða, um kaup og sölu hlutabréfa, kaup og leigu fasteigna og að lokum ýmsar heimildir um eitt og annað. Um söluna á Vífilsstaðalandinu stendur, með leyfi forseta, að „selja landspildur í eigu ríkisins í Garðabæ“. Ríkið á eina landspildu í Garðabæ, það er Vífilsstaðalandið. En það er ekki nefnt í heimildargreininni sem Alþingi samþykkti. Fjárlaganefndir hafa í gegnum tíðina gagnrýnt að framkvæmdarvaldið hafi svo rúmar heimildir til að fara með eigur almennings. Til dæmis segir í samdóma áliti fjárlaganefndar frá árinu 2011 um skýrslu Ríkisendurskoðunar á ríkisreikningi 2009, með leyfi forseta:

„Það er álit fjárlaganefndar að 6. gr. heimildir í fjárlögum hafi verið of rúmar og rétt sé að þrengja þær og skilgreina betur hvað í þeim felst. Það er afar mikilvægt að heimildir til fjármálaráðherra í fjárlögum sé skýrar og um þær formfast regluverk enda oft um að ræða ráðstafanir í ríkisfjármálum sem geta skipt miklu máli fyrir afkomu ríkissjóðs.“

Lögmenn hafa einnig tekist á um þetta. Til dæmis hefur Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður fjallað um sölu á Vífilsstaðalandinu og fært rök fyrir því að heimild í fjárlögum dugi ekki til að selja eigur ríkisins. Með því álitamáli og til að auka gegnsæi sem lögin um opinber fjármál krefjast er mjög aðkallandi að endurskoða það verklag löggjafans að veita framkvæmdarvaldinu svo rúmar og illa skilgreindar heimildir til sölu á eigum ríkisins með fjárlögum. Þær eru einmitt tilefni til þessarar umræðu hér (Forseti hringir.) því að málið er ógagnsætt og illa reifað og kemur öllum að óvörum hversu mikið samningurinn er kaupandanum í vil.