146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

salan á Vífilsstaðalandi.

[16:13]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Ég hjó eftir því hjá hæstv. ráðherra að að hans mati eru þetta hin nýju vinnubrögð, að tala ekki um hlutina á þinginu og gera samninga á bak við tjöldin og þverskallast síðan við þeirri gagnrýni sem slíkur samningur fær í umræðu á þinginu. Það er líka augljóst að það sem sagt er í svari sem ráðherra og ráðuneytið gaf um hvernig standa skyldi að sölu á slíku landi er allt þverbrotið í þessari tilteknu sölu. Hvort á nú við, hæstv. ráðherra, það sem ráðherra og ráðuneyti skrifar í skriflegum svörum til þingmanna eða það sem menn gera?

Varðandi ábataskiptin. Er nú ríkið þá komið í lóðabrask? Og 60%, mínus allur kostnaður, hvernig var það fundið? Á ekki þjóðin, ríkið, landið núna? Hefði ekki verið nær að það væru 80 eða 90%? Af hverju 60?

Það er gott og vel að vinna með sveitarfélögum. Af hverju að byrja á Garðabæ? Eiga þeir ekki nóg land? Ríkið seldi stóran hluta úr landi Garðakirkju 1992, 400 hektara, á 50 milljónir. Það er vissulega enn lægra verð en núverandi ráðherra gefur. Og það er fyrst núna farið að nýta það land. Á að fara að nýta landið á Vífilsstöðum til uppbyggingar einn, tveir og þrír? Ég held ekki. Ég held að það eigi að fara að nýta landið sem var keypt 1992 og 1999.

Hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason: Nú liggur fyrir hlutlægt mat. Hvað með matið frá VSÓ 2001 sem var átta til sextán sinnum hærra en þetta mat? Var það ekki hlutlægt? Af hverju var það ekki lagt til grundvallar?

Staðreyndin er þessi: Jörðin Vífilsstaðir var í eigu Garðakirkju, gefin af kirkjunni að hluta að öllum líkindum, stofnað söfnunarátak á öllu landinu sem Íslendingar tóku þátt í að fjármagna, safnað peningum hjá Vestur-Íslendingum og Oddfellow sem gjöf til þjóðarinnar til að byggja þar heilbrigðisstofnun. Fer maður svona með gjafir? (Gripið fram í: Nei.)