146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

salan á Vífilsstaðalandi.

[16:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Virðulegi forseti. Það verður að segja að þessi umræða kemur á óvart, að svo grandvar og reyndur þingmaður skuli hafa hlaupið svo gjörsamlega á sig eins og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson sem hefur talað til skiptis um að þetta sé allt of hátt verð og allt of lágt verð. Auðvitað er þetta stefna Framsóknarflokksins, annaðhvort eða, það er aldrei hægt að ákveða neitt, það má ekki ákveða hvar spítalinn á að vera. Það á alltaf að fresta, það á að slá öllu á frest. Þannig er stefna Framsóknarflokksins, en núna þegar heimild til að selja þessa spildu er búin að vera í 16 ár í fjárlögum kemur honum gjörsamlega á óvart að hún hafi verið seld. Þetta var m.a.s. samþykkt með atkvæði hv. þingmanns fyrir síðustu jól. Ég greiddi því ekki atkvæði. Ég studdi ekki þetta ákvæði sérstaklega en ég tel, ólíkt hv. þingmanni, að maður eigi að fara eftir lögum, jafnvel þótt maður hafi ekki stutt þau sjálfur. En hann telur að hann þurfi ekki einu sinni að styðja lög sem hann greiðir atkvæði.

Það gilda bæði fjárlög og jarðalög í landinu. Það er ekki hægt að tala um að það hafi verið slæm sala þegar ríkið nýtur ábatans af jörðinni. Við erum að auka framboð hérna. Auðvitað kemur þarna í ljós að hv. þingmaður ber sérstakan kala til þessa sveitarfélags enda eru engir fulltrúar á hans vegum [Kliður í þingsal.] í því sveitarfélagi. (Gripið fram í: Kostar 9 milljónir.) Þetta var samþykkt einróma af öllum bæjarfulltrúum sveitarfélagsins en það er skoðun þingmannsins að milliliðinn vanti. Það vantar lundann í þennan samning, það eru þau vinnubrögð sem hv. þingmaður vill viðhafa. Ég vil hins vegar að ríki og sveitarfélögin hjálpist að við að leysa húsnæðisvanda ungs fólks. [Háreysti í þingsal.]