146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

orð ráðherra í sérstakri umræðu.

[16:28]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta er með ólíkindum. Hér höfum við þingmenn ekki fengið nein einustu svör við spurningum um sölu ríkisins á jörð Vífilsstaða heldur í staðinn fengið óásættanlega framkomu ráðherra í garð fyrirspyrjanda. Hæstv. fjármálaráðherra lætur ekki einu sinni sjá sig, hvorki hér í salnum né í hliðarsölum þingsins, heldur hverfur á brott um leið og þessum dónaskap er varpað hér fram í þingsal. Hann hefur ekki manndóm í sér til að koma hingað upp og biðjast afsökunar á þessum orðum. Og hefur heldur ekki manndóm í sér til að svara þeim spurningum sem við þingmenn erum að reyna að fá svör við, þ.e. um þau vildarkjör sem Garðabær fékk þegar ríkið seldi jörð Vífilsstaða til Garðabæjar.

Frú forseti. Ég óska eftir því að hæstv. fjármálaráðherra komi hingað í salinn, biðjist afsökunar á orðum sínum og svari spurningum okkar þingmanna.