146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

orð ráðherra í sérstakri umræðu.

[16:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við tökum hér til máls og bendum á hið augljósa en fáum ekki viðbrögð frá hæstv. ráðherra. Hann sér ekki ástæðu til að biðjast afsökunar á orðum sínum. Það liggur fyrir. Hann er búinn að hlýða á þessa umræðu í hliðarsal. Hann sér heldur ekki ástæðu til að svara þeim spurningum sem til hans er beint sem gerir okkur hér í minni hluta á þinginu, þrátt fyrir að við séum nú með meiri hluta atkvæða á bak við okkur, erfitt um vik við að sinna aðhaldshlutverki okkar.

Þá hlýt ég að lokum að beina orðum mínum til frú forseta. Finnst frú forseta í lagi að fara fram með þessum hætti, að hæstv. ráðherra, sem á hér síðasta orðið, nýti þau með þessum óásættanlega hætti sem við sjáum hér? Finnst frú forseta það í lagi? Hyggst hún taka málið upp í forsætisnefnd? Hyggst forsætisnefnd eiga orðastað við hæstv. ráðherra? Því að svona getur framkvæmdarvaldið ekki komið fram við löggjafarvaldið. Það er bara ekki í boði. Ég geri þá kröfu að forsætisnefnd (Forseti hringir.) taki þetta mál upp. Þetta er ekki í lagi og við látum ekki bjóða okkur svona framkomu, frú forseti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)