146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

orð ráðherra í sérstakri umræðu.

[16:36]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég tek áfram undir með félögum mínum. Það virðist allt benda til þess, þar sem tími sérstöku umræðunnar er nú liðinn, að þingmenn sem hér áttu orðastað við ráðherra og fengu engin svör þurfi líklega að safna þessu saman í eina stóra fyrirspurn handa ráðherra svo hann neyðist til að svara henni, það komi fram skrifleg fyrirspurn. Ef ráðherra ætlar að reyna að koma sér hjá því að svara þessu í þingsal hlýtur hann að þurfa að svara berist fyrirspurnin skriflega. Ég styð að þetta mál verði tekið upp í forsætisnefnd, því að hann er ekki eini ráðherrann sem gerir svona. Ég hef sagt við ráðherrann að mér hafi ekki líkað þau orð sem hann beindi hér til mín. Hann baðst afsökunar á því, gerði það að vísu á fésbók. Hann gerði það ekki hér í þinginu en hann gerði það á fésbók. Ég ætla að biðja hæstv. ráðherra um (Forseti hringir.) að hugleiða orð sín og biðjast afsökunar á réttum stað, þ.e. í ræðupúlti Alþingis. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)