146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

Landhelgisgæslan og endurnýjun þyrluflotans.

[16:39]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Mig langar að byrja á að þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir að taka vel í beiðni mína um sérstaka umræðu um þetta mikilvæga og brýna mál sem endurnýjun á þyrluflota Landhelgisgæslunnar er.

Landhelgisgæslan rekur þrjár stórar þyrlur í dag. Gæslan á eina þyrlu, TF-LÍF og leigir tvær, TF-GNÁ og TF-SÝN. TF-LÍF er elst þeirra, smíðuð 1986 og því orðin rúmlega 30 ára gömul.

Þann 3. september 2015 skipaði þáverandi innanríkisráðherra stýrihóp til að tryggja leitar- og björgunarþjónustu innan efnahagslögsögu Íslands til framtíðar með endurnýjun á þyrlum Landhelgisgæslu Íslands. Hópurinn skilaði af sér skýrslu í janúar 2016 undir heitinu Skýrsla vegna þyrlukaupa fyrir Landhelgisgæslu Íslands. Samfélagslegt markmið þeirrar skýrslu er að tryggja leitar- og björgunarþjónustu með þyrlum innan efnahagslögsögu til framtíðar. Meðal annars kemur fram í skýrslunni að þeir þættir sem helst ráða hvernig þyrlur verða keyptar snúa að kröfum um björgunargetu þyrlna Landhelgisgæslunnar á sjó. Þar er tekið mið af lögum um Landhelgisgæsluna sem skilgreinir starfssvæði Gæslunnar sem hafið umhverfis Ísland og afmarkast af efnahagslögsögu landsins og landgrunninum, auk úthafsins samkvæmt reglum þjóðarréttar.

Á grundvelli þessa hefur verið lagt upp með að þyrlur Landhelgisgæslunnar hafi drægi til að fara 235 sjómílur frá strönd sem eru ystu mörk efnahagslögsögunnar, þær geti tekið tíu manns um borð og náð til baka inn á eldsneytisstað. Með því móti er hægt að sinna leit og björgun með þyrlu innan allrar efnahagslögsögunnar. Þar að auki fer Landhelgisgæslan með yfirstjórn leitar og björgunar á skilgreindu leitar- og björgunarsvæði Íslands sem nær yfir 1,9 milljónir ferkílómetra. Einnig sinna björgunarþyrlur Gæslunnar leit, björgun og sjúkraflutningum á landi.

Það kemur fram í skýrslu stýrihópsins að hagkvæmara sé að eiga þyrlur en leigja þær. Fyrir þrjár þyrlur getur sá kostnaðarmunur numið allt að 500 millj. kr. á ári. Tillaga stýrihópsins er sú að kaupa þrjár þyrlur af svipaðri stærð og Landhelgisgæslan er með í þjónustu sinni í dag. Heildarfjárfesting þessa er áætluð um 13,9 milljarðar og annar kostnaður sem felst í útboðskostnaði og ráðgjöf við útboðsferlið er áætlaður um 300 milljónir. Heildarkostnaður verkefnisins er því áætlaður um 14,2 milljarðar.

Áhrif gengisstyrkingar íslensku krónunnar í þessu máli er með þeim hætti að í skýrslu stýrihópsins, sem skilaði í janúar 2016, er ein af forsendum skýrslunnar að reiknað er út frá því að gengi bandaríska dollarsins sé 132,3 kr. á dollarann. Miðað við gengi dagsins í dag, sem er um 103 kr. á dollarann, hefur íslenskan krónan styrkst um 28% frá því að skýrslan var unnin. Kaupverð þyrlna í áætluninni í dag væri þá nær 10 milljörðum í staðinn fyrir 14 eins og í áætluninni í skýrslunni.

Síðan er annar þáttur sem gæti haft töluverð áhrif á þetta ferli varðandi kaup á nýjum stórum þyrlum og það er að olíuiðnaðurinn á heimsvísu er í lægð og má gefa sér að það geti haft áhrif á verðlag á þyrlum. Rétt er að geta þess að björgunargeta hér á landi í kringum landið veiktist töluvert árið 2009 þegar varnarliðið yfirgaf Ísland og þar með líka þyrlu- og björgunarsveit varnarliðsins sem hafði á að skipa fimm öflugum þyrlum. Því er mikilvægt að leita allra leiða til að efla getu og styrk þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar sem allra fyrst til að fylla í það skarð sem þyrlu- og björgunarsveit varnarliðsins skildi eftir sig.

Það hefur lengi verið umræða í gangi um að þjónusta þyrludeildar Landhelgisgæslunnar sé mun veikari í austurhluta landsins. Það hefur verið umræða um að styrkja þjónustu Landhelgisgæslunnar á því sviði á undanförnum árum á austurhluta landsins og þá líka á hafsvæðinu norðan og austan við land.

Að lokum langar mig að bera eftirfarandi spurningar undir hæstv. dómsmálaráðherra:

Er ráðherra eða ríkisstjórnin með einhverjar hugmyndir um endurnýjun á þyrluflota Landhelgisgæslunnar? Ef svo er, hvernig á að standa að þeirri framkvæmd?

Væri mögulegt að flýta endurnýjun á þyrluflota Gæslunnar vegna þeirra hagstæðu aðstæðna sem nú eru uppi þegar litið er til sterks gengis krónunnar og annarra hagstæðra aðstæðna sem nú eru uppi í þessum sérhæfða geira?

Í þó nokkurn tíma hefur verið unnið að hugmyndum um að Landhelgisgæslan setti upp aðra starfsstöð í austurhluta landsins með sérstaka áherslu á þyrlurekstur Gæslunnar. Hver er staðan í þeirri vinnu?