146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

Landhelgisgæslan og endurnýjun þyrluflotans.

[16:58]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ríkisendurskoðun fjallar um sjúkraflug á Íslandi í skýrslu sem stofnunin birti í ágúst 2013 og setti fram ábendingar m.a. til innanríkisráðuneytisins um að innanríkisráðuneytið þyrfti að skoða með formlegum hætti hvort aðkoma Landhelgisgæslunnar að sjúkraflugi á Íslandi væri raunhæfur möguleiki og framkvæmanlegur kostur og að vinna þurfi langtímaáætlun um starfsemi Landhelgisgæslunnar um land allt.

Ríkisendurskoðun fylgdi ábendingum sínum eftir og ítrekaði þær í skýrslu frá september 2016. Þar segir að um miðjan september 2012 hefði verið ákveðið að bjóða sjúkraflug út frá og með 1. janúar 2013 og að Mýflug hf. hafi tekið verkefnið að sér. Aðkoma Landhelgisgæslunnar var þó áfram til skoðunar og því var samningstíminn einungis eitt ár með framlengingarákvæði til eins árs í senn að hámarki fimm sinnum.

Innanríkisráðuneytið upplýsti í fyrra að það hefði leitað eftir afstöðu Landhelgisgæslunnar sem hefði talið margvísleg tækifæri felast í því að hún hefði formlega með höndum allt sjúkraflug á Íslandi og að til stæði að fá óháðan aðila til að gera úttekt á frekari aðkomu Landhelgisgæslunnar að sjúkraflugi.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Er úttektinni lokið? Hvenær við fáum að sjá niðurstöðurnar?

Nú er Landhelgisgæslan með starfsemi dreifða í leiguhúsnæði á mörgum stöðum. Þingmenn Suðurkjördæmis hafa á þremur kjörtímabilum flutt mál þess efnis að nýta aðstöðu á Keflavíkurflugvelli fyrir Landhelgisgæsluna. Á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli er til staðar afar heppileg aðstaða fyrir alla starfsemina til framtíðar. Þar er húsnæði, flugbrautir, góð hafnaraðstaða og stoðkerfi sem fullnægir þörfum Landhelgisgæslunnar að öllu leyti.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hefur hún tekið þá tillögu til skoðunar?