146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

Landhelgisgæslan og endurnýjun þyrluflotans.

[17:00]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka málshefjanda þessa þörfu umræðu. Það kemur fram í fjármálaáætlun að gert er ráð fyrir kaupum á þrem nýjum þyrlum sem löngu er tímabært, en um leið vekur athygli að rekstur stofnunarinnar er alls ekki tryggur, hvorki þegar kemur að mönnun né öðrum rekstri. Það kemur fram í umsögn Landhelgisgæslunnar um fjármálaáætlunina að ef stofnunin á að geta sinnt lögboðnum verkefnum hvað varðar öryggi og þjónustu svo að vel sé þurfi framlögin að vera í kringum 1,4 milljarða kr. á ári.

Það þarf að fjölga þyrluáhöfnum um tvær þannig að við búum ekki við að 56% af árinu geti Gæslan ekki tryggt með óyggjandi hætti leitar- og björgunarþjónustu á sjó eða með þyrlu. Landhelgisgæslan hefur óskað eftir viðbótarfjárheimildum til þess að geta haldið úti rekstri á TF-SIF á og við Ísland allt árið um kring svo að ekki þurfi að leigja hana í verkefni erlendis stóran hluta ársins enda ekki sömu möguleikar og verið hefur til þess. Til að tryggja lágmarkslöggæslu og björgunargetu í úthafinu er nauðsynlegt að tryggja rekstur flugvélarinnar á Íslandi. Einnig þarf að bæta við tveimur áhöfnum á varðskipin sem kostar í kringum 550 milljónir en ekki er gert ráð fyrir því hjá ríkisstjórninni og besti kosturinn væri að þriðja skipið væri haffært þannig að viðbragðstíminn væri ekki meiri en 24 tímar í stað þeirra 48 eins og nú er. Á síðasta ári var ekkert útkallshæft skip til reiðu 165 daga ársins og í fjármálaáætlun er það beinlínis viðmið árið 2022 að svo verði áfram. Það hlýtur að vera algerlega óásættanlegt. Þessi veikleiki á fjármálaáætluninni er verulegur og óskiljanlegt hvers vegna ekki er tekið betur mið af áætlunum Gæslunnar. Það er til lítils að hafa þyrlur og skip ef ekki er hægt að fullnýta til þeirra verka sem þeim eru ætluð.

Í skýrslu sem hér hefur verið vitnað til um þyrlukaup Gæslunnar sem skilað var í fyrra má sjá að útköllum vegna björgunarþyrlna hefur fjölgað um 27% sl. fjögur ár, að mestu vegna fjölgunar ferðamanna sem fer líklega hækkandi miðað við áframhaldandi fjölgun ferðamanna, en auk þess eru einnig í þessum tölum aðkallandi sjúkraflutningar á landi.

Í fjármálaáætlun kemur fram að stofnunin standi frammi fyrir áskorun á næstu árum (Forseti hringir.) við að halda uppi viðunandi þjónustustigi við eftirlit, leit og björgun, allt vegna þess að ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja Landhelgisgæslunni ekki til nægjanlega fjármuni. Við þetta er ekki hægt að una, virðulegi forseti.