146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

takmarkanir á tjáningarfrelsi.

297. mál
[17:17]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Eins og kunnugt er hefur Mannréttindadómstóllinn kveðið upp sex dóma síðan á árinu 2012 þar sem komist hefur verið að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hafi brotið gegn tjáningarfrelsi kæranda í andstöðu við 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Það er rétt að halda því til haga, eins og ég hef svo sem gert áður í þessum ræðustól, að í engum þeirra dóma laut gagnrýni Mannréttindadómstólsins að íslenskri löggjöf á þessu sviði. Gagnrýni dómstólsins laut að aðferðafræði innlendra dómstóla, nánar tiltekið því að rökstuðningurinn hafi ekki gefið nægilega skýrt til kynna að stuðst hafi verið við aðferðafræði Mannréttindadómstólsins sjálfs við mat á því hvort umrædd skerðing á tjáningarfrelsinu hafi verið í samræmi við skilyrði 10. gr. sáttmálans. Svo geta menn haft skoðanir á því hvort aðferðafræði Mannréttindadómstólsins eigi sérstaklega við hér eða eigi að gilda skilyrðislaust hér á landi.

Í kjölfar dóma Mannréttindadómstólsins ber stjórnvöldum skylda til að gera fullnustudeild og ráðherraráði Evrópuráðsins grein fyrir hvernig dómarnir hafi verið fullnustaðir. Í fullnustu dómanna felst að sjálfsögðu skylda til að greiða þær bætur eftir atvikum sem kveðið er á um í dómunum en jafnframt að grípa til almennra aðgerða til að koma í veg fyrir að sambærileg brot endurtaki sig.

Það er auðvitað stundum nauðsynlegt að gera lagabreytingar í því skyni. En eins og áður segir kölluðu þessir dómar ekki sérstaklega á það. Þær almennu aðgerðir sem stjórnvöld gripu til lutu því einkum að því að stuðla að því að dómstólar gætu brugðist við þeirri gagnrýni sem felst í dómum Mannréttindadómstólsins. Í því skyni voru dómarnir til að mynda þýddir og þeim dreift, m.a. til dómstóla. Skipulagði dómstólaráð m.a. einhvers konar fræðslu fyrir dómara, bæði almennt um Mannréttindadómstólinn en einnig um tjáningarfrelsisákvæði sáttmálans og þá dóma sem kveðnir hafa verið upp gegn Íslandi, en það er auðvitað mikilvægt að dómarar átti sig á því að þetta hefur valdið bótaábyrgð á íslenska ríkinu. Það er rétt að menn séu upplýstir um það.

Ég ritaði líka sérstaklega bréf til dómstólaráðs þar sem vakin var athygli á ofangreindum dómum og þeirri gagnrýni sem kemur fram þar. Í svarbréfi frá ráðinu var bent á þá fræðslu sem hafði átt sér stað í því skyni.

Ég árétta að það leiði ekki beint af ofangreindum dómum að breyta þurfi XXV. kafla almennra hegningarlaga. Hins vegar eru auðvitað viðhorfsbreytingar og hugsanlega ný tækni sem geta mögulega leitt til þess að rétt sé að skoða hvort draga eigi úr refsivernd á sumum sviðum. Ég hef sjálf haldið því fram, og það er mín skoðun, að ærumeiðingarkafli eða ærumeiðingar eigi kannski ekki endilega heima í refsilögum en lúti miklu fremur lögmálum skaðabótaréttarins.

Það er rétt í því sambandið að benda á að á 138. löggjafarþingi var samþykkt þingsályktun um afgerandi lagalega sérstöðu Íslands varðandi tjáningar- og upplýsingafrelsi. Samkvæmt þingsályktuninni var mennta- og menningarmálaráðherra falið að vinna úttekt á lagaumhverfinu og undirbúa nauðsynlegar lagabreytingar eða nýja löggjöf til að styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun, útgáfufrelsi. Mér skilst að fyrirspyrjandi þekki þá þingsályktun vel, enda skipaði hún sem mennta- og menningarmálaráðherra stýrihóp til að leiða þá vinnu. Vegna vinnu við þingsályktunina fór þáverandi innanríkisráðherra þess á leit við réttarfarsnefnd árið 2012 að nefndin veitti álit sitt á því hvort afnema bæri refsingar samkvæmt XXV. kafla hegningarlaga um ærumeiðingar og hvort rök stæðu til þess að færa réttarúrræði vegna ærumeiðinga alfarið af sviði refsiréttarins yfir á svið einkaréttar, t.d. skaðabótaréttar. Niðurstaða refsiréttar var á þeim tíma sú að við þetta mat yrði að hafa að leiðarljósi þær grundvallarreglur sem leiða af 71. og 73. gr. stjórnarskrárinnar og 8. og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, um friðhelgi einkalífs og tjáningarfrelsi. Ég er því mati alveg sammála.

Að mörgu væri að hyggja ef ráðast ætti í slíkar breytingar. Taldi nefndin að til greina kæmi að afnema ákvæði 234. og til og með 237. gr. almennra hegningarlaga, um ærumeiðingar, að hluta til eða öllu leyti. Áfram yrði þó að tryggja að þeir sem teldu vegið að æru sinni og mannorði á opinberum vettvangi gætu notið fullnægjandi réttarúrræða, einkum í formi ómerkingar ummæla og miskabóta.

Í september á síðasta ári kynnti menntamálaráðherra á heimasíðu sinni nokkur frumvörp sem unnin voru af fyrrgreindum stýrihópi, þar á meðal frumvarp til nýrra laga um ærumeiðingar. Samkvæmt því frumvarpi eru ýmis ákvæði hegningarlaganna felld úr gildi en þess í stað kveðið á um bótaskyldu þess sem meiðir æru annars manns með móðgun eða aðdróttunum. Það hefur ekki verið farið formlega yfir þær tillögur í ráðuneytinu en ég hef þó gert það sjálf. Mér finnst vel koma til greina frumvarp sem þarna er kynnt. Ég hef þó ákveðnar efnislegar athugasemdir við það, tel jafnvel ekki gengið nægilega langt í því að tryggja (Forseti hringir.) tjáningarfrelsi og hef óskað eftir því að hafin verði vinna við það í ráðuneytinu að skoða þessar tillögur sérstaklega með það sjónarmið að leiðarljósi.