146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

takmarkanir á tjáningarfrelsi.

297. mál
[17:25]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og hv. þingmönnum sem hér tóku til máls.

Vonir stóðu til þess eftir fyrsta dóminn sem féll að Hæstiréttur breytti túlkun sinni á tjáningarfrelsisákvæðum laganna. Því hefur verið haldið fram að það hafi í raun ekki gerst, sem hafi orsakað að ítrekað falla dómar hjá Mannréttindadómstóli Evrópu. Það tel ég að sýni okkur að ekki sé nægjanlegt að endurskoða dómaframkvæmdina heldur þurfi greinilega að fara yfir lögin. Ég skil sem svo þegar hæstv. ráðherra segir að henni finnist mikilvægt að endurskoða þessi ákvæði, bæði út frá refsirammanum og breiðari sýn á hvernig við getum staðið vörð um tjáningarfrelsið, að það standi til.

Hæstv. ráðherra vitnaði í frumvarp frá stýrihópnum um IMMI-málið svokallaða. Ég fagna því ef það er til skoðunar.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Eigum við von á að hæstv. ráðherra muni leggja til einhverjar breytingar í anda þess frumvarps á næsta þingi? Eigum við von á að tekist verði á við þessi ákvæði almennra hegningarlaga þannig að við séum að bregðast í raun og veru við niðurstöðu Mannréttindadómstólsins? Því það er svo, og mér finnst það sérstakt umhugsunarefni þegar meira að segja formaður Dómarafélagsins vísar til þess að endurskoða þurfi lögin, það dugi ekki bara að horfa til framkvæmdarinnar. Ég lít svo á að hæstv. ráðherra sé sammála því og bið hana um að staðfesta þann skilning og hvort hún geti upplýst okkur um hvort við megum eiga von á að þetta verði á hennar málalista á næsta þingi. Við sem erum búin að vera hér, kannski fulllengi — það er auðvitað ekki í lagi að löggjafarsamkundan bregðist ekki við jafn ítrekuðum dómum, þó að þeir séu ekki allir sambærilegir og lúti ekki allir, eins og hæstv. ráðherra benti á, að því (Forseti hringir.) sem kemur fram í löggjöf, þá virðist það samt svo að hér þurfi löggjafinn að tala með skýrari hætti í þessum málum.