146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

mannréttindasjónarmið í íslenskri löggjöf o.fl.

304. mál
[17:30]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil spyrja hæstv. dómsmálaráðherra um þætti sem snúa að hennar verksviði og ráðuneyti þegar kemur að markmiðum framkvæmdaáætlunarinnar í jafnréttismálum fyrir árin 2016–2019, en sú áætlun var samþykkt á Alþingi 7. september sl. Í fyrsta lagi langar mig að vita hvernig rannsókn á stöðu hælisleitenda og flóttamanna miðar út frá jafnréttis- og mannréttindasjónarmiðum eins og kveðið er á um í 12. tölulið framkvæmdaáætlunarinnar og í öðru lagi hvað líði mótun aðgerða til að tryggja að hælisleitendur og flóttamenn fái sanngjarna málsmeðferð og viðeigandi vernd sem kveðið er á um í áætluninni.

Til að halda því til haga var í þinglegri vinnu allsherjar- og menntamálanefndar á síðasta ári fjallað um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda samhliða framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum. Eins og fram kemur í umsögn Jafnréttisstofu um áætlunina er ekki tekið fullnægjandi tillit til jafnréttis- og mannréttindasjónarmiða í íslenskri löggjöf. Í íslenskri löggjöf er vernd minnihlutahópa ekki tryggð eða þeim tryggðar leiðir til að leita réttar síns. Svokallaðar mismununartilskipanir Evrópusambandsins hafa til að mynda ekki enn verið lögfestar hér á landi. Meðan svo hefur ekki verið gert er alveg ljóst að mannréttindavernd hér á landi er verulega áfátt. Það er því afar brýnt að gera raunverulegar ráðstafanir til að bæta úr stöðunni og ráðast í alvöruaðgerðir.

Eins og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna hafa ítrekað bent á eru konur og börn yfirgnæfandi hluti flóttamanna og hælisleitenda í heiminum í dag. Það sjáum við í hópi þeirra sem leita til Evrópu eftir alþjóðlegri vernd. Það er því alveg ljóst að jafnréttis- og mannréttindasjónarmið þurfa að vera í algjörum forgangi þegar staða hælisleitenda og flóttamanna er kortlögð í þágu allra viðkvæmasta hópsins sem flýr heimalönd sín.

Einnig vil ég gjarnan fá svör hæstv. ráðherra við því hvort kannað hafi verið hvort fullnægjandi tillit sé tekið til jafnréttis- og mannréttindasjónarmiða í íslenskri löggjöf og lagaframkvæmd, m.a. með hliðsjón af kyni, kynhneigð eða kynímynd, viðkvæmum einstaklingum og þolendum ofbeldisbrota og mansals eins og kveðið er á um í framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2016–2019.

Það er nefnilega líka algjört forgangsatriði að tekið sé tillit til kyns, kynhneigðar og kynímyndar í málaflokkum flóttafólks þar sem fólk er oft og iðulega neytt til þess að flýja heimalönd sín vegna kynhneigðar sinnar. Þolendur mansals og ofeldisbrota eru líka allra viðkvæmustu samfélagshóparnir sem við þurfum að hlúa sérstaklega að.

Þetta eru sum sé mínar meginspurningar til hæstv. dómsmálaráðherra. Ég vonast til að fá góð og ítarleg svör við þessum spurningum mínum.