146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

mannréttindasjónarmið í íslenskri löggjöf o.fl.

304. mál
[17:34]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina um það sívinsæla mál sem mannréttindi eru. Spurningarnar eru í þremur liðum en innanríkisráðuneytið hefur ekki hafið formlega rannsókn í samræmi við 12. tölulið framkvæmdaáætlunar í jafnréttismálum fyrir árin 2016–2016 og þar með hefur staða hælisleitenda og flóttamanna ekki verið könnuð markvisst út frá jafnréttis- og mannréttindasjónarmiðum líkt og gert er ráð fyrir í áætluninni. Undir áætlunina fellur annars vegar að kanna hvort fullnægjandi tillit sé tekið til jafnréttis- og mannréttindasjónarmiða í íslenskri löggjöf og framkvæmd, m.a. með hliðsjón af kyni, kynhneigð og kynímynd, viðkvæmum einstaklingum, þolendum ofbeldisbrota og mansals, og hins vegar að setja fram tillögur að úrbótum til að tryggja hælisleitendum og flóttamönnum sanngjarna málsmeðferð og viðeigandi vernd.

Þess ber þó að geta að ný lög um útlendinga tóku gildi 1. janúar sl. Innanríkisráðuneytið þá, nú dómsmálaráðuneytið, fékk styrk í lok árs 2015 frá ráðherranefnd um jafnréttismál til gerðar rannsóknarverkefnis til að greina stöðu kvenna sem sótt hafa um hæli hér á landi og kanna hvernig hægt væri að tryggja konum fullnægjandi vernd við meðferð hælismála og veitingu hælis þar sem kynbundin atriði geta vissulega vegið þungt.

Sá styrkur var m.a. nýttur við frumvarpsgerð að nýjum lögum um útlendinga þar sem utanaðkomandi sérfræðingur rýndi frumvarpið sérstaklega út frá framangreindum sjónarmiðum og kom með ábendingar og tillögur að úrbótum við frumvarpssmíðina.

Í greinargerðinni með frumvarpinu að lögum um útlendinga má jafnframt finna ítarlegan kafla um samræmi laganna við stjórnarskrá Íslands og alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar. Stjórnarskráin hefur m.a. að geyma ítarlegan kafla um mannréttindi einstaklinga, sem sagt jafnræði allra fyrir lögum og bann við hvers konar mismunun, skoðana- og tjáningarfrelsi, friðhelgi einkalífs og fjölskyldu, rétt til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómstólum o.fl. Hún er nefnilega ansi góð, þessi stjórnarskrá. Þá hefur Ísland jafnframt gerst aðili að ýmsum þjóðréttarsamningum sem varða mannréttindi, málefni útlendinga og réttarstöðu þeirra. Við samningu frumvarpsins var tekið tillit til þessara alþjóðlegu skuldbindinga Íslands þannig að sem best samræmi yrði á milli laganna og þjóðréttarreglna.

Í nýjum lögum um útlendinga er víða vísað til framangreindra réttinda einstaklinga samkvæmt mannréttindaskuldbindingum, óháð kyni, kynhneigð eða kynímynd, og jafnframt leitast við að tryggja eftir fremsta megni réttindi viðkvæmra einstaklinga. Þessu til stuðnings má vísa til þess að samkvæmt nýjum lögum um útlendinga er að finna skilgreiningu á því hvaða einstaklingar teljast vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem taka þarf tillit til við meðferð máls eða geta ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögunum án aðstoðar eða sérstaks tillits. Þeir einstaklingar sem falla innan þessarar skilgreiningar eru t.d. fylgdarlaus börn, fatlað fólk, fólk með geðraskanir eða geðfötlun, aldrað fólk, þungaðar konur, einstæðir foreldrar með ung börn, fórnarlömb mansals, alvarlega veikir einstaklingar og einstaklingar sem hafa orðið fyrir pyndingum, kynfæralimlestingum, nauðgun eða öðru alvarlegu líkamlegu eða andlegu ofbeldi.

Þá má einnig vísa til 28. gr. laga um útlendinga, svo dæmi sé tekið í þessu samhengi, þar sem kveðið er á um það hvernig viðtali við umsækjanda um alþjóðlega vernd skuli háttað. Í viðtalinu ber Útlendingastofnun m.a. að gæta að því hvort taka þurfi sérstakt tillit til umsækjanda vegna persónulegra aðstæðna hans. Getur þá t.d. verið átt við það að umsækjandi teljist í viðkvæmri stöðu eða taka þurfi tillit til menningar eða trúar viðkomandi umsækjanda. Einnig þarf að taka tillit til kyns viðkomandi og skulu aðilar eiga þess kost að vera spurðir af starfsmanni og túlki af sama kyni, en það getur sérstaklega átt við ef meintar ofsóknir fela í sér brot á kynfrelsi einstaklings eða á einhvern hátt þannig að gagnstætt kyn gæti haft áhrif á framburð umsækjanda.

Einnig er auðvitað mikilvægt að allar umsóknir um alþjóðlega vernd séu skjalfestar, rannsakaðar og að ákvarðanir um þær séu teknar og að meðlimir fjölskyldu sem sækir um hæli hafi allir rétt til að tjá sig. Skulu þeir eftir fremsta megni teknir í viðtal einir og sér en ekki sameiginlega með öðrum fjölskyldumeðlimum. Til dæmis ættu konur ekki að vera spurðar að eiginmönnum viðstöddum. Einnig er mikilvægt að allir fjölskyldumeðlimir, þar með talið börn, hafi rétt til að tjá sig og að mark sé á þeim tekið miðað við aldur og þroska. Viðtöl við foreldra eða forráðamenn skulu einnig fela í sér að rannsakað sé ástand barns og beiðni um alþjóðlega vernd.

Í þingsályktun um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum er gert ráð fyrir því að innanríkisráðuneytið, nú dómsmálaráðuneytið, (Forseti hringir.) beri á gildistíma áætlunar ábyrgð á framkvæmd rannsóknar um stöðu hælisleitenda og flóttamanna. Líkt og fyrr segir er formleg vinna (Forseti hringir.) að rannsókn í ráðuneytinu hvað þetta varðar ekki hafin en gert er ráð fyrir því að hún hefjist fljótlega.