146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

mannréttindasjónarmið í íslenskri löggjöf o.fl.

304. mál
[17:39]
Horfa

Iðunn Garðarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar til að vekja athygli á b-lið 12. töluliðar framkvæmdaáætlunarinnar þar sem segir að verkefni ráðuneytisins felist í því að setja fram tillögur að úrbótum til að tryggja hælisleitendum og flóttamönnum viðeigandi vernd. Staða ákveðinna þjóðfélagshópa í þessu samhengi er sérstaklega mikilvæg. Verklagsreglur fyrir móttöku flóttakvenna hafa verið í mótun í ráðuneytinu síðan árið 2014 en þær hafa ekki enn verið gefnar út. Staða hinsegin fólks sem kemur hingað sem flóttamenn er ekki viðurkennd nægilega vel og það vantar þekkingu á málum mansalsfórnarlamba og transfólks.

Í nágrannalöndum okkar starfa sérfræðingar í málefnum þessara viðkvæmu þjóðfélagshópa hjá útlendingastofnunum, en hérlendis sárvantar sérþekkingu í málaflokkinn. Við þurfum að sérmennta starfsfólk innan stofnana sem sinnir þessum hópi fólks en ekki bara greina stöðuna og setja fram tillögur að úrbótum í skýrslum.