146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

mannréttindasjónarmið í íslenskri löggjöf o.fl.

304. mál
[17:41]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Samkvæmt skilgreiningum Útlendingastofnunar er Mósúl öruggur staður. Það er verið að senda Kúrda til baka þangað. Útlendingastofnun hlýtur að vera hreinlega bara betur að sér um ástand á jörðu niðri af því að ég var að lesa „trending“ á Twitter um að núna sé lokaorrustan við ISIS að hefjast um þessa borg. Við ætlum að senda fólk þangað af því að það er „öruggur staður“. Maður hlýtur að spyrja sig: Hvað er eiginlega í gangi þegar það er ákveðið að senda fólk hreinlega út í opinn dauðann?

Það er líka sagt að sá sem býr á svæðum þar sem Boko Haram eru og hefur þurft að flýja af því að hann er kristinn geti bara flutt til Suður-Nígeríu, það sé alveg öruggt. Þetta er fráleitt, forseti, það er fráleitt að komið sé fram við fólk á þennan hátt og það er bæði látið bíða hér í óratíma í óvissu, síðan er ekki tekið (Forseti hringir.) á eðlilegan hátt við málum þess og fólki er bara mokað út úr landi á Dyflinnarreglugerðinni einni saman.