146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

mannréttindasjónarmið í íslenskri löggjöf o.fl.

304. mál
[17:45]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegi forseti. Eins og málshefjandi þakka ég þingmönnum sem hér hafa tekið til máls fyrir umræðuna. Hún var kannski víðtækari en málshefjandi ætlaði og beint var til mín spurningu sem varðar ekki efnið beint en þó er mér ljúft og skylt að svara henni. Ég var spurð hvort ég ætlaði að standa fyrir einhverjum breytingum á útlendingalögum um þá ákvörðun að synja hælisumsóknum frá svokölluðum öruggum löndum og um leið tilhæfulausum hælisumsóknum. Því er til að svara að þetta ákvæði er komið inn í lög um útlendinga fyrir mína tilstuðlan og ég mun svo sannarlega standa vörð um þetta úrræði, enda tel ég það nauðsynlegt til að við getum verið í stakk búin til að veita bestu mögulegu þjónustu og afgreiðslu mála frá hælisleitendum, frá því fólki sem hingað leitar og er í brýnustu neyð. Það eru ekki áform um að breyta þessu.

Málshefjandi harmar auðvitað að málið sé ekki komið lengra, þ.e. málið er lýtur að greiningu og rannsókn á stöðu hælisleitenda með hliðsjón af framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum. Eins og ég gat um í ræðu minni var stórt og viðamikið verkefni að setja ný útlendingalög. Vonir standa til þess að bærilega hafi tekist að setja þau og um leið hafa hliðsjón af þessu mikilvæga máli, en við munum auðvitað halda áfram vinnunni. Framkvæmdaáætlunin gildir til ársins 2019 svo (Forseti hringir.) það er einhver tími til að endurskoða og finna upp nýja hluti í þessum efnum.