146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

endómetríósa.

298. mál
[17:51]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Eygló Harðardóttir hefur beint til mín munnlegri fyrirspurn. Ég vil byrja á að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessum heilbrigðisvanda sem margar konur eiga við að glíma.

Ég mun leyfa mér í þessu svari að nota orðið legslímuflakk fyrir alþjóðlega heitið endómetríósa (endometriosis) til þess að einfalda málið, alla vega framburðinn fyrir mig.

Svo ég svari spurningu hv. þingmanns er það svo að konur með legslímuflakk fá þjónustu á mörgum þjónustustigum heilbrigðiskerfisins. Í heilsugæslunni, á sjúkrahúsum og sjúkrasviðum heilbrigðisstofnana, hjá sjálfstætt starfandi sérfræðingum. Í heilsugæslunni sinna heimilislæknar konum með legslímuflakk og leita ráðgjafar hjá kvensjúkdómalæknum eftir þörfum. Á stóru sjúkrahúsunum okkar tveimur er málum þannig háttað að á Sjúkrahúsinu á Akureyri hafa kvensjúkdómalæknar samráð sín á milli og fá aðstoð verkjateymis sjúkrahússins þegar þörf er á. Þeir eru einnig með móttökur og sinna konum með legslímuflakk á Húsavík, Sauðárkróki, Egilsstöðum og í Neskaupstað. Á kvennadeild Landspítala hefur verið starfandi sérfræðingur í meðferð við legslímuflakki frá árinu 2003 og annar sérfræðingur bættist við árið 2014. Kvennadeild Landspítala tekur við tilvísunum frá læknum utan spítalans þegar grunur er um sjúkdóminn. Sérfræðingar sjá um greiningar, meðferð og eftirlit með framvindu sjúkdómsins og árangri meðferðar.

Unnið hefur verið að því allt frá árinu 2004 að auka þjónustu við þennan sjúklingahóp á Landspítalanum. Á síðasta ári var sérhæfður hjúkrunarfræðingur ráðinn til að sinna konum með legslímuflakk sérstaklega. Ég er mikill talsmaður aukinnar teymisvinnu í heilbrigðisþjónustunni og legg áherslu á að þeir sem þangað leita fái skjóta og góða þjónustu hjá þeim fagaðila sem best þekkir til þess heilbrigðisvanda sem einstaklingurinn á við að glíma hverju sinni. Ég styð því heils hugar þær áætlanir Landspítalans að fjölga þeim faghópum sem sinna konum með legslímuflakk. Þessar konur glíma oft við margþætt vandamál, svo sem langvinna verki af ýmsum toga, ófrjósemi, þvag- og hægðavanda svo eitthvað sé nefnt. Þær þurfa því ekki aðeins þjónustu lækna og hjúkrunarfræðinga heldur, ef svo ber undir, einnig félagsráðgjafa, sálfræðinga, sjúkraþjálfara og fleiri sérhæfðra aðila með þekkingu á sjúkdómnum.

Ég vil leggja áherslu á mikilvægi aukinnar fræðslu um legslímuflakk, ekki bara til kvenna heldur einnig til foreldra unglingsstúlkna og ekki síst til heilbrigðisstarfsfólks. Ég bendi í því sambandi á tillögur nefndar um heildarendurskoðun laga nr. 25/1975, um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, en þeim tillögum var skilað í nóvember sl. Nefndin leggur m.a. fram tillögur um styrkingu á kynfræðslu í grunn- og framhaldsskólum landsins í samstarfi við embætti landlæknis sem nú hefur yfirumsjón með málefnum tengdum kynheilbrigði. Ég tel að einn þáttur kynfræðslu til grunn- og framhaldsskólanema eigi að vera fræðsla um legslímuflakk. Þannig náum við ekki aðeins til unga fólksins með fræðsluna heldur getum einnig sent upplýsingar til forráðamanna þeirra.

Skólahjúkrunarfræðingar um land allt sem hafa virkt samráð í gegnum þróunarsvið heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins eru einnig mjög mikilvægur farvegur fyrir fræðslu og ráðgjöf um legslímuflakk. Fræðsla til heilbrigðisstarfsmanna um einkenni og greiningu sjúkdómsins er mjög mikilvæg að mínu mati. Með aukinni þekkingu heilbrigðisstarfsfólks, hvort sem er í heilsugæslunni eða á öðrum sviðum heilbrigðisþjónustunnar, má auka líkur á snemmgreiningu sjúkdómsins og koma í veg fyrir langvarandi verkjavandamál sem erfitt getur verið að meðhöndla.

Ég fagna einnig og styð það nána samstarf sem sérfræðingar kvennadeildar Landspítalans hafa átt við sjúklingasamtök kvenna með legslímuflakk. Sú aukna þjónusta sem komið hefur verið á síðustu ár hefur verið skipulögð í samráði við sjúklingasamtökin og með þarfir sjúklingana fyrir þjónustu og meðferð að leiðarljósi. Nýjasta viðbótin í þjónustuna er opnun síma- og tölvupóstþjónustu við þennan sjúklingahóp. Að mínu mati er þetta samtal sérfræðinganna og sjúklingasamtakanna til mikillar fyrirmyndar.

Ég vona að mér hafi að einhverju leyti tekist að svara spurningu hv. þingmanns og hlakka til að eiga hér góða umræðu og koma aftur inn í hana á eftir.