146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

endómetríósa.

298. mál
[17:57]
Horfa

Ingibjörg Þórðardóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir umræðuna. 5–10% kvenna þjást af legslímuflakki, eða endómetríósu. Þetta er risavaxið heilbrigðisvandamál. Við getum áætlað að um 176 milljónir kvenna í heiminum þjáist af sjúkdómnum. Við þurfum að fara að bregðast við vandanum í samræmi við það.

Auka þarf þekkingu í heilbrigðiskerfinu. Mikilvægt er að stofnað verði teymi sem tekur við þessum konum og sér um þær með svipuðum hætti og þá sem greinast með sykursýki I, sem er þó fámennari hópur. Greiningartími sjúkdómsins er sex til tíu ár, sem er algerlega óásættanlegt.

Þetta er ekki bara heilbrigðisvandamál, þetta er jafnréttismál. Þetta er kvennasjúkdómur og leyfi ég mér að efast um að staðan væri svona ef þetta væri karlasjúkdómur. Oft er gert lítið úr verkjum kvenna, talað er um túrverki eins og það sé eðlilegt að konur þjáist. (Forseti hringir.) Þetta getur varað allan þann tíma sem kona hefur blæðingar, 40 ár, nánast hálfa ævina. Þetta er veruleg skerðing á lífsgæðum.