146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

þjónusta vegna kvensjúkdóma.

302. mál
[18:03]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Spurningin sem ég beini núna til hæstv. heilbrigðisráðherra vaknaði einmitt á sama fundi og ég nefndi áðan, þ.e. á fundi samtakanna um stöðu kvenna með endómetríósu innan heilbrigðiskerfisins, sem haldinn var 8. mars sl., þar sem fram kom að þjónusta Landspítalans við stúlkur undir 18 ára aldri, sem þangað leita vegna kvensjúkdóma, væri bágborin að því leyti að þar sem þetta væru börn og leituðu á barnaspítalann væri þar einfaldlega ekki finna þá þjónustu sem sinnt væri á kvennadeildinni. Þessum stúlkum er þá vísað yfir á kvennadeildina, eða jafnvel virðast starfsmenn ekki átta sig á því að ástæða sé til að vísa þangað.

Ég taldi ástæðu til þess að taka þetta sérstaklega upp við ráðherra og fá skýr svör við því hvort það gæti hugsanlega verið að ekki væri tryggt að það sé sérfræðikunnátta hjá Landspítalanum á barnadeildinni þegar kemur að kvensjúkdómum.

Stúlkur á Íslandi byrja kynþroskaskeið sitt yfirleitt frá 9–16 ára. Það er algengast að blæðingar byrji á aldrinum 11–13 ára. Sumar stúlkur eru jafnvel yngri, átta ára, þegar þær byrja á blæðingum, en aðrar byrja ekki fyrr en 16 ára.

Við erum líka með gögn frá samnorrænni rannsókn frá árinu 2006 sem leiðir í ljós að 35% íslenskra stúlkna höfðu haft kynmök fyrir 15 ára aldur, en tíðnin var lægst í Noregi. Það kemur líka fram að yngsti aldurshópurinn var sá sem var með flesta bólfélaga, sem jók að sama skapi líkur á ýmsum sjúkdómum.

Í skýrslu landlæknis um heilsufar ungs fólks á aldrinum 14–23 ára kom fram að væri kynheilbrigði íslenskra ungmenna skoðað út frá klamydíu, kynfæravörtum, barneignum og fóstureyðingum og borið saman við sambærilega þætti á Norðurlöndunum, væri samanburðurinn okkur gjarnan í óhag.

Það virðist líka vera að einhverju leyti að ekki sé verið að gæta nægilega vel að börnunum okkar, en það er önnur spurning sem ég hef í hyggju að spyrja ráðherrann að seinna í dag, .

Ég tók eftir því í svari ráðherrans þegar kom að endómetríósunni að hann nefndi sérstaklega kvennadeildina. Hann talaði hins vegar ekki um þá þjónustu sem veitt er á barnaspítalanum. Ég tók líka eftir því að í bæklingi frá landlæknisembættinu þar sem fjallað var um kynheilbrigði var ekki vísað á þá þjónustu sem er samt sérstaklega hugsuð fyrir börn. Hér á Íslandi teljast einstaklingar börn þar til þau verða (Forseti hringir.) 18 ára.