146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

þjónusta vegna kvensjúkdóma.

302. mál
[18:17]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka umræðuna og tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað um mikilvægi þess að við tryggjum þjónustuna og við tryggjum sömuleiðis góða og samkvæmni í þjónustu eftir því hvort sjúklingar eru börn undir 18 ára aldri eða fullorðnir. Ég held að áhersla á aukna teymisvinnu þegar kemur að meðhöndlun og móttöku sjúklinga, hvort sem er á Landspítalanum eða á öðrum stigum heilbrigðisþjónustunnar, í heilsugæslunni eða heilbrigðisstofnunum úti á landi, auki líkurnar á því að breiðari grunnur sé hjá því teymi sem tekur á móti sjúklingnum og það sé kannski sterkari hefð fyrir því að leita til annarra heilbrigðisstétta eða annarra deilda ef svo ber undir.

Góðu fréttirnar eru, þó svo við vitum að ekkert sé fullkomið og allt megi bæta, að sú staða er við Landspítalann að barnaspítalinn, barnadeildin, er í næsta húsi við kvennadeildina og innangegnt þar á milli. Það gefur í það minnsta alla möguleika til að auka samstarf þar á milli og full ástæða er til að ýta undir það. Ég treysti því að þessi umræða hér á Alþingi muni hjálpa til þess að vekja athygli á málinu og þörfinni.

Ég ítreka aftur það sem ég sagði í fyrri ræðu minni að ég held að fræðsla og upplýsingar séu mjög mikilvægar til þess að auka meðvitund og meðvitund um þetta samspil þegar kemur að börnum undir 18 ára aldri. Við eigum að taka (Forseti hringir.) tillögur starfshópsins um endurskoðun (Forseti hringir.) laga virkilega sterkt inn í þá vinnu.

Ég þakka góða umræðu.