146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

kynsjúkdómar.

471. mál
[18:19]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég beini hér fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra um til hvaða aðgerða ráðherrann hyggst grípa til að bregðast við þeirri þróun að tíðni kynsjúkdóma, einkum sárasóttar og lekanda en einnig HIV, hefur aukist. Frá því að ég hóf þingmannstíð mína hef ég tekið upp með ákveðnu millibili umræðu um kynhegðun og kynheilbrigði barna á Íslandi og ungmenna í ljósi þess að sú staða hefur almennt ekki verið góð í samanburði við aðrar þjóðir. Þess vegna var það mér mikið áhyggjuefni að sjá það í gögnum sem hafa verið birt undanfarið að svo virðist vera sem tíðni ákveðinna kynsjúkdóma sé að aukast enn frekar og okkur hafi ekki orðið neitt sérstaklega ágengt varðandi þá kynsjúkdóma sem eru algengastir hér.

Ef við flettum bæklingi frá landlækni frá 2009 má þar finna lista yfir nokkrar staðreyndir um Ísland. Byrjað er á því að benda á að því fyrr sem fólk byrjar að stunda kynlíf, þeim mun meiri eru líkur á alvarlegum afleiðingum eins og kynsjúkdómum, þungunum og fóstureyðingum. Það smitast um níu einstaklingar 19 ára og yngri af klamydíu í hverri viku. Það smitast tæplega einn í mánuði af HIV/alnæmi. Það er engin lækning í augsýn og flestir sem greinast með smit eru 25–29 ára. Sumir kynsjúkdómar fylgja viðkomandi alla ævi. Síðan fáum við núna þær upplýsingar að tíðnin virðist vera að aukast.

Í svari við skriflegri fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra tók ég saman upplýsingar t.d. um tíðni klamydíu 15–19 ára á hverja 10.000 íbúa. Þar sjáum við að tíðnin virðist hafa farið eitthvað niður árið 2014 en hefur aukist aftur árin 2015 og 2016. Við vonuðumst náttúrlega til að geta tekið á kynfæravörtum með bólusetningum en jafnvel þar sjáum eilitla aukningu. Síðan koma fréttir sem snúa að lekanda og sárasótt, sem var tiltölulega sjaldgæft hér, en virðist hins vegar vera að aukast.

Því held ég að einkar brýnt sé að heyra frá ráðherranum. Til hvaða aðgerða hyggst hann grípa til að bregðast við þeirri þróun sem ég hef rætt um? Mér skilst að það sé nefnd sem eigi að fara að skila af sér núna á næstunni, en þetta er mjög brýnt.

Hæstv. ráðherra sagði að í svona stórum málaflokki væri erfitt að eyrnamerkja fjármuni til ákveðinna verkefna, en hér verður ráðherrann einfaldlega að svara því hvort hann hafi í hyggju að eyrnamerkja (Forseti hringir.) fjármuni til þess að fylgja eftir þeim tillögum sem eru væntanlegar.