146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

kynsjúkdómar.

471. mál
[18:30]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir svörin og samþingmönnum mínum fyrir umræðuna og athugasemdir þeirra.

Það er algjörlega á hreinu að við þurfum með einhverjum hætti að breyta viðhorfum hérna líka. Við þurfum að efla heilbrigðisþjónustuna en við þurfum líka að breyta viðhorfum. Það getur einfaldlega ekki verið ásættanlegt að eftir að skýrsla kom frá landlækni árið 2009 sé enn þá verið að tala um að kynsjúkdómar eins og klamydía og kynfæravörtur séu algengast hér á landi í samanburði við hin norrænu ríkin. Það er einnig nefnt að klámáhorf ungra drengja sé algengast hér. Það er talað um að notkun hormónagetnaðarvarna sé minnst hér á landi af norrænu þjóðunum. Sala neyðargetnaðarvarna er næsthæst og svo virðumst við einna helst ekki vita almennt hvernig á að nota smokkinn.

Við höfum séð það þegar kemur að stórum lýðheilsuverkefnum eins og varðandi áfengisneyslu eða tóbaksnotkun eða aðra fíkniefnanotkun ungmenna að við höfum getað breytt hegðun, við höfum getað breytt viðhorfum. Það þarf að gera hér, það er algjörlega augljóst. Við vitum hvað þarf að gera þannig að nú er spurning um að ráðherrann hvetji starfshóp sinn til að skila sem fyrst tillögunum, ég held að þau kannist ágætlega við verkefnið, og hann fari í það að tryggja fjármagn til þess að fylgja þeim eftir. Hann hefur allan stuðning í þingsalnum, því að áhrifin af þessum sjúkdómum geta verið veruleg. Við eigum einfaldlega ekki að sætta okkur við slíka tölfræði, hvorki varðandi þá sjúkdóma sem eru algengastir né þá sjúkdóma sem hafa hingað til verið tiltölulega óalgengir, að tíðni þeirra sé að aukast eins og við höfum sé síðustu misseri.