146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

kynsjúkdómar.

471. mál
[18:32]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir góða umræðu og hvatningu. Ég tek sérstaklega undir með hv. fyrirspyrjanda um að auðvitað eigum við ekki að sætta okkur við tölur sem sýna fram á að við séum eftirbátar annarra. Og reyndar þegar kemur að heilbrigði og sjúkdómum eigum við auðvitað alltaf að stefna hátt. Við eigum að stefna hátt í forvörnum og lýðheilsu yfir höfuð.

Það er samt eins og við þekkjum úr öðrum lýðheilsuverkefnum að þeim lýkur aldrei. Þetta er stöðug barátta. Sérstaklega þegar kemur að því að vekja athygli á vanda, að auka meðvitund, er þetta stöðug barátta og þarf að vinna aftur og aftur.

Þess vegna legg ég áherslu á að starfshópurinn sem skipaður var 13. mars sl., sem er að störfum, skili sem fyrst. Það er mikilvægt fyrir mig að fá niðurstöður starfshópsins áður en við grípum til nýrra aðgerða og þá verðum við vonandi tilbúin til þess að taka af myndugleik á þeim tillögum þegar þær koma fram.

Rétt í sambandi við það sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir nefndi varðandi mönnun í heilsugæslunni þá höfum við verið að leggja ákveðna áherslu og ég vil leggja áherslu á aukna teymisvinnu í heilsugæslunni sem kemur ungum konum til góða og aðgengi þeirra að viðeigandi heilsugæslu, aðgengi að hjúkrunarfræðingum og heilsugæslunni o.s.frv. Það er vissulega til bóta.

Ég þakka fyrir góða umræðu, mikilvæga fyrirspurn og vænti þess að við heyrumst (Forseti hringir.) meira á þessum vettvangi í framhaldinu.